Aðstoðarforstjóri fbi rekinn

Jeff Sessions dómsmálaráðherra Bandaríkjanna rak Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI í gærkvöldi, aðeins 26 klukkutímum áður en McCabe átti rétt á að hætta með fullum eftirlaunum.

Ástæða uppsagnarinnar er sögð sú að við innri rannsókn hjá FBI hafi komið í ljós að McCabe hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar án leyfis og síðan logið um það við eftirgrennslan.

McCabe sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem hann segir ásakanirnar rangar og brottreksturinn sé aðeins þáttur í yfirstandandi stríði ríkisstjórnar Trumps gegn FBI og sérstökum saksóknara í Rússarannsókninni.

Trump, sem hefur ítrekað ráðist á McCabe fyrir að draga taum Hillary Clinton í starfi sínu hjá FBI, fagnaði brottrekstrinum sérstaklega í Twitterfærslu í nótt og sagði þetta vera frábæran dag fyrir harðduglegt starfsfólk FBI og fyrir lýðræðið.

Í yfirlýsingu McCabes segir hann spjótunum sérstaklega hafa verið beint gegn sér fyrir hans hlut í eftirmála uppsagnar James Comey og fyrir það sem hann varð vitni að í því máli. Þetta sé bein aðför að mannorði hans, stýrt af forsetanum til að koma í veg fyrir að hann fái þau eftirlaun sem hann á rétt á eftir 21 ár í starfi hjá FBI. Þetta sé liður í herferð til að grafa undan FBI og leyniþjónustum Bandaríkjanna.