María: „þetta er náttúrulega ekki boðlegt og það verður eitthvað að gera í þessu“ - lífsnauðsynleg lyf ekki til á landinu

Samkvæmt heimasíðu Lyfjastofnunar eru tugir lyfja sem ekki eru til á landinu. Lyfjaheildsölum ber að tilkynna til lyfjastofnunar ef lyf séu ekki til.

María Pétursdóttir, myndlistakona, er ein þeirra sem tekur reglulega lyf sem nú eru ekki til á landinu. María er greindist með MS sjúkdóminn fyrir 20 árum. Í samtali við RÚV segir að hún þurfi nú að bíða í tvo mánuði eftir lyfjum sem hún tekur vegna krampa sem hún fær vegna veikindanna.  

„Það er fráleitt að líf og líðan sjúklinga velti á því hvernig lyfjaheildsalar stýri birgðum sínum og innkaupum. Mér er tilkynnt að þetta sé ekki til hjá heildsalanum, verði ekki til fyrr en í lok nóvember. Það þýðir bara að ég verð bara með krampa. Ég verð væntanlega að taka einhvern vond lyf, eða lyf sem henta ekki nákvæmlega þessu einkenni næstu tvo mánuðina.“

Maríu var boðið samheitalyf en hún segir að það sé ekki eins gott.

„Ég er búin að vera taka það í smá tíma en það er ekki eins gott. Ég finn það alveg strax, það dugar ekki, það slær ekki alveg eins á. Samheitalyfin eru aldrei alveg eins, þannig þetta er mjög vont ástand. Þetta er alltaf að gerast. Ég er líka með vanvirkjan skjaldkirtil, þetta gerðist fyrir nokkur varðandi skjaldkirtilslyfin, þau voru hvergi til á landinu. Þetta er náttúrulega bara agalegt.“

Hún segir einnig að þetta sé ekki einsdæmi og sé oft að gerast og vonar að eitthvað verði gert í þessum málum.

„Þetta er búið að koma upp trekk í trekk síðustu ár að það séu ekki til lyf. Kannski mun alvarlegri dæmi en mitt dæmi. Lyf sem mjög alvarlega veikt fólk þarf á að halda eru ekki til. Þetta er náttúrulega ekki boðlegt og það verður eitthvað að gera í þessu. Ég vona að það verði eitthvað gert.“