Margir stoltir en fleiri sækja um styrk

Aldrei fleiri hafa sótt um fjárhagsstuðning vegna lyfjakaupa og læknishjálpar til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri félagins segir að margir séu of stoltir til að sækja um stuðningsfé en gríðarlegur lyfja- og lækniskostnaður lendir á krabbameinsveikum, allt upp í eina og hálfa milljón frá greiningu. 

Um 70 manns greinast á ári með krabbamein á aldrinum 18-40 ára sem er hópurinn sem Kraftur vinnur með og veitir ýmsan stuðning. Aðstandendur eru líka í félaginu. Margir hinna veiku eru fjölskyldufólk og Edda Dröfn Eggertsdóttir er ein þeirra Hún er ung kona með son á framfæri. Hún á ekki lengur fyrir meðferð en hún greindist í fyrra með krabbamein í meltingafærum, lífhimnu og eggjastokkum. 

Níu manns hafa sótt núna til Krafts um hjálp með greiðslur fyrir meðferð og lyf Meðalstyrkurinn hingað til hefur verið 350 þúsund krónur. 

Ragnheiður segir að sjóðurinn sé mikið að rýrna vegna fjölgandi umsókna. Þetta hafi verið sjóður sem tímabundið var settur upp og er svokallaður “neyðarsjóður” hjá félaginu. Hann átti aðeins að setja upp tímabundið. 

Kraftur, stuðningsfélag var stofnað haustið 1999 til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Félagið er fyrir fólk á aldrinum 18 - 40 ára og aðstandendur þess á öllum aldri. Kraftur reiðir sig á frjáls framlög en fær ekki fé frá hinu opinbera, þótt Félagsþjónustan í sumum sveitarfélögum hafi hlaupið stundum undir bagga. 

 Aldrei eftir stofnun neyðarsjóðsins hafa borist eins margar umsóknir og nú,  segir Ragnheiður.