Már fékk sjálfur námsstyrk frá seðlabankanum: finnst ekkert óeðlilegt við að láta ingibjörgu fá 18 milljónir – hefur gert fleiri samninga

Ingibjörg Guðbjartsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, fékk um átján milljónir í námsstyrk, laun og endurgreiddan kostnað frá bankanum meðan hún var í námsleyfi og sótti MPA-nám í Bandaríkjunum. Engar kvaðir voru um að snúa aftur til starfa og sneri Ingibjörg aldrei til baka að námi loknu.

Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri segir í samtali við Vísi að þarna sé ekkert óeðlilegt á ferðinni. Samningurinn hefur verið harðlega gagnrýndur. Már heldur fram fullum fetum að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað. Hann segir að margir samningar af svipuðum meiði hafi verið gerðir í bankanum í hans valdatíð sem og annarra seðlabankastjóra.

Þá upplýsir Már að hann sjálfur hafi fengið námsstyrk frá fyrrverandi Seðlabankastjóra, Jóhannesi Nordal.

„Þetta á sér reyndar stað í bönkum og fyrirtækjum eftir því sem ég best veit. Að starfsmenn sem þykja standa sig vel, og komast í gott nám en geta ekki fjármagnað sig, búnir að vinna í ákveðinn tíma, að þeir fái svona samninga, stundum í eitt ár, stundum í tvö ár. Sumir hafa fengið þetta í doktorsnám og þar á meðal ég, þar var það lengri tími, og það hafa verið nokkrir slíkir samningar í sögu bankans.“