Mamma hans yngri en bróðir hans

Einn tunguliprasti Íslendingur vorra daga, sagnameistarinn Kristinn Rúnar Ólafsson er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld, en þar rifjar hann upp vægast sagt óvanalega fjölskyldusögu sína.

Hann er náttúrlega Eyjamaður af bestu gerð, úr Bæ eins og hálfbróðir hans Ási var alltaf kenndur við, en sú þjóðsagnapersóna var fædd fyrir fyrri heimsstyrjöld, á meðan Kristinn sjálfur kom í heiminn löngueftir seinna stríð. Pabbi þeirra beggja hafði í millitíðinni náð sér í á að giska helmingi yngri konu sem ól Kristin á sjötta áratugnum, þegar bræður hans af fyrra hjónbandi Ólafs, Siggi og Ási, voru orðnir rígfullorðnir menn, vel eldri en móðir hans.

Og það er kostulegt að hlusta á Kristin rifja upp allar uppákomurnar á stórfjölskyldusenunni í Eyjum frá fyrri tíð, en ekki síður ástæður þess að hann hélt til Spánar á unga aldri og settist þar að til margra áratuga, elskaður af landsmönnum sínum í norðri fyrir meitlaða útvarpspistla sem voru fluttir af sjaldgæflegri orðgnótt.

Það leiðist engum að horfa á Mannamál kvöldsins sem byrjar klukkan 20:00.