Mamma bauð kinks upp á ýsu í raspi

Eitt hressilegasta Mannamálsviðtalið í sögu Hringbrautar birtist landsmönnum á skjánum í kvöld en þá rifjar Baldvin Jónsson sölumaður upp litríka ævi sína sem á köflum er beinlínis neyðarlega skemmtileg.

Hann varð bissnesmaður á barnsaldri og komst strax í álnir sem gluggaþvottamaður, vel innan við tíu ára aldurinn, en þá hét hann úti flokki félaga sinna sem fengu krónu fyrir hreinan glugga, en Baldvin rukkaði húseigendur um túkall. Og þannig rúllaði boltinn af stað.

Það liggur við að áhorfandinn gráti af hlátri þegar Baldvin rifjar upp tímann á sjötta áratug síðustu aldar þegar hann fékk félagan í Kinks til að troða sex sinnum upp í troðfullu Austurbæjarbíói, þrjá daga í röð, síðdegis og síðla kvölds, en Ray Davies og félagar mættu heim til mömmu Baldvins í Sólheimum á milli gigga og þáðu þar ýmist ýsu í raspi eða lambalæri með grænum baunum.

Og svo undirbjó hann fótboltaleik síðustu aldar, millum Vals og Benfica, hvar innanborðs var Eusébio, besti knattspyrnumaður heims á þessum tíma fyrir réttri hálfri öld, en Baldvin fer hreinlega á flug í lýsingum sínum á leiknum og öllu tilstandinu í kringum hann.

Hann talar um Moggaárin og markaðsmálin í seinni tíð þegar hann hefur freistað þess að kynna Ísland úti í löndum sem sjálfbært land sem státi af einstakri matvöru, en kerfið heima hafi reynst honum fjótur um fót, bændum og matvælaframleiðendum sé haldið niðri af gölnu kerfi sem engin glóra sé í, svo ekki sé fastar að orrði komist.

Mannamál hefst klukkan 20:00 í kvöld og er endursýnt strax klukkan 22:00.