Mállausar og varnarlausar verur geta líka sigrað!

Í fréttum á Stöð 2 í fyrrakvöld var skýrt frá því að Hvalur hf. myndi ekki fara á langreyðaveiðar í sumar.

Sagði Ólafur Ólafsson, skipstjóri á Hval 9, að skýringin væri sú, að leyfi til veiðanna hefði komið of seint; ekki fyrr en í „lok febrúar“.

Hallar skipstjórinn hér réttu máli, en Hvalur hf. sótti ekki „...um úthlutun veiðiheimilda á langreyði til handa Hval hf. árin 2019-2023“ fyrr en með tölvupósti frá 12.03.19, og er þessi texti tekinn úr þeim tölvupósti. Fullyrðing um að veiðileyfi hafi ekki fengizt fyrr en í „lok febrúar“, er því staðlausir stafir.

Sjávarútvegsráðherra gaf út reglugerð um hvalveiðar, til fimm ára, 19. febrúar 2019, en hún er aðeins rammi fyrir mögulegar veiðar. Til að unnt sé að stunda þær, þurfa útgerðarfyrirtæki að sækja um og fá tiltekin leyfi fyrir tilteknum veiðum með tilteknum skilyrðum skv. ofangreindu.

Hið sanna er, að skv. staðfestingu sjávarútvegsráðuneytisins frá í dag, hefur enn engin heimild verið gefin út til handa Hval hf. til nýrra langreyðaveiða. Vilja forráðamenn Hvals hf. greinilega leyna þeirri staðreynd.

Eins og fram hefur komið, höfum við í Jarðarvinum kært Hval hf. fyrir meint brot á veiðileyfum, reglugerðum og lögum, og hefur ríkissaksóknari staðfest tvær þessara kæra.

Ætla má, að sjávarútvegsráðherra og hans fólk telji, að það sé ekki við hæfi,  að veita fyrirtæki, sem uppvíst er að endurteknum meintum brotum, ný leyfi meðan kærumál eru í rannsókn og til lykta leidd.

Að þessu gefnu viljum við láta í ljós ánægju okkar með þessa meðferð og stefnumörkun sjávarútvegsráðherra, sem þá má flokkast undir góða og faglega stjórnunarhætti, ráðuneytinu til sóma.

Takk fyrir athyglina. Mállausar og varnarlausar verur geta líka sigrað!