Magnús hrundi niður í gólfið í flugvél: „þegar ég vaknaði var blóð út um allt“

Magnús Scheving var brautryðjandi í þolfimi her á landi en þekktastur er hann fyrir sigurgöngu Latabæjar. Í viðtali í veglegu afmælisriti Viðskiptablaðsins greinir Magnús frá því þegar hann framleiddi kynningarþátt af Latabæ og var ætlun hans að sannfæra bandarísku kapal- og gervihnattasjónvarpsstöðina Nickelodeon um að taka þáttaröðina til sýninga. Þetta var árið 2002 og það gekk allt á afturfótunum í byrjun og átti enn eftir að syrta í álinn.

„Við í Latabæ vorum búin að bíða hrikalega lengi eftir þessum fundi með Nickelodeon og vorum gríðarvel undirbúin eftir allt sem á undan var gengið. En morguninn sem ég átti að fljúga út syrti í álinn. Ég hafði þá nýlega farið í hálskirtlatöku og ekki beinlínis verið að hlífa mér eftir það, og þegar ég vaknaði eldsnemma var blóð út um allt. Ég ók beint á slysadeild en þá var enginn læknir við sem gat sinnt þessu fyrr en um hádegi, og flugið var um klukkan fimm. Ég var að fara á mikilvægasta fund ævi minnar og raunar verið allt lífið að undirbúa mig fyrir þennan dag, þannig að þetta leit illa út.“

Eftir að læknir hafði gert að sárum hans var Magnúsi ráðlagt að sleppa því alfarið að fljúga. En það kom ekki til greina að fara eftir þeim fyrirmælum. Vélin var rétt komin í loftið þegar ógæfan dundi yfir. Magnús hrundi niður í gólfið. Um borð í vélinni var læknir og kveðst Magnús ekkert muna eftir fluginu. Þegar komið var til New York beið eftir honum sjúkrabíll sem átti að flytja hann á spítala.

„Ég neitaði að fara í sjúkrabílinn því að það var útilokað í mínum huga að mæta þannig til landsins til að selja Íþróttaálfinn og allt það sem hann stóð fyrir, hollustu og hreysti. Ég harðneitaði, bað samstarfsfélaga mína að halda á mér í gegnum flugstöðina og inn á hótel; á sjúkrahús færi ég aldrei og sérstaklega ekki ef ég þyrfti kannski að vera nokkra daga þar og missa af fundinum sem átti að vera klukkan níu næsta morgun. Ég komst á hótelið án þess að missa meðvitund, lá fárveikur þar alla nóttina og þurfti að skipta þrívegis á rúminu því að það blæddi svo mikið.“

Morguninn eftir fór Magnús í sturtu, klæddi sig í jakkaföt og fór á tveggja tíma fund hjá Nickelodeon. Tókst Magnúsi og samstarfsmönnum hans að selja þáttinn.

„Auðvitað var ætlast til að ég myndi hoppa og sprikla  eins og alvöru álfur, og ég beit á jaxlinn og gerði armbeygjur á annarri hendi, gekk á höndum um alla skrifstofuna og stökk svo aftur á bak heljarstökk af skrifborðum með tilheyrandi látbragði. Þetta féll mjög vel í kramið hjá Bandaríkjamönnunum.“

Í lok fundarins bætti Magnús við að ef þeir væru enn í vafa að Latibær myndi fá börn til að hreyfa sig bauðst hann til að troða upp í hvaða barnaskóla sem væri í borginni, en á þessu stigi var engin ákvörðun tekin um slíkt. Þaðan lá leiðin upp á hótel en þá hringdu forsvarsmenn Nickelodeon og vildu endilega hrinda hugmyndinni í framkvæmd, eitthvað sem Magnús hafði ekki búist við. Magnús segir:

„Ég varð því að gjöra svo vel að brölta á fætur og fara til þessa skóla í Queens, þar sem ég hoppaði og skemmti í búningnum í fjóra tíma og krakkarnir alveg dolfallnir. Fulltrúar sjónvarpsstöðvarinnar mættu og eftir það samþykktu þeir kaupin.“