Magnús geir: „ég hrökk auðvitað svolítið í kút” – sjáðu myndbandið þegar hatari kom til landsins

Það var góð stemmning þegar Eurovisionhópurinn kom til landsins í Keflavík í gær. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri RÚV var á svæðinu og sagði hann að Íslendingar gætu verið stoltir af sínu fólki. Þá mættu einnig hópur úr félaginu Ísland-Palestína til að þakka Hatara fyrir að hefja merki Palestínu á loft í beinni útsendingu í Ísrael.

Magnús Geir kvaðst ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu:

„Ég hrökk auðvitað svolítið í kút. Mér brá af því að ég var nú nokkuð vel inn í því sem var að gerast og í góðu sambandi við okkar fólk á staðnum og vissi ekki af þessu auðvitað. Þannig að ég neita því ekki að ég hrökk svolítið í kút,” sagði Magnús og bætti við á öðrum stað: „Við skulum bara bíða og sjá hvað verður. Það hefur nú eitt og annað gerst í þessari keppni á þeim áratugum sem hún hefur verið haldin. Ýmsum fánum verið veifað þannig að við skulum bíða og sjá.“

Bætti Magnús við að hann væri afar sáttur við framlag Íslands. Þá ræddi RÚV við Matthías, annan söngvara sveitarinnar og spurði hann bæði út í hina jákvæðu og neikvæðu gagnrýni sem þeir fengu fyrir að veifa merki Palestínu. Matthías svaraði:

„Auðvitað er það rétt að öðruvísi aðgerðir hefðu skilað öðruvísi niðurstöðu. Við fylgdum okkar hjarta og teljum okkur hafa gert það sem okkur bar með okkar hætti. Það sem okkur finnst skipta máli núna er að skapa breiða samstöðu um það sem við erum þó sammála um sem er mannréttindabarátta Palestínu. Ef við getum vakið athygli á henni, nýtt þetta umtal til að skapa breiða samstöðu, það væri málstaðnum til framdráttar. Við munum áfram tala fyrir því.“

Hér má sjá myndskeið frá því þegar Hatari kom til landsins.