Magnað myndband sem sýnir mátt barna - hvað ætlar þú að gera?

Ísey Heiðarsdóttir leikkona / Mynd:UNICEF/Steindór

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fagnar um þessar mundir þrjátíu ára afmæli sínu og af því tilefni hefur UNICEF á Íslandi útbúið áhrifamikið myndband sem er þörf áminning um hversu mikill máttur barna getur verið.

Við lifum á tímum þar sem börn eru í vaxandi mæli að láta til sín taka, láta rödd sína heyrast og grípa til aðgerða sem eftir er tekið. Réttur barns til að láta skoðanir sínar í ljós til að hafa áhrif er einmitt ein af grundvallargreinum Barnasáttmálans. Og börn geta vel knúið áfram samfélagslegar breytingar. Það sýna dæmin og það er umfjöllunarefni myndbands UNICEF á Íslandi.

Í myndbandinu fékk UNICEF leikkonuna ungu Ísey Heiðarsdóttur (Víti í Vestmannaeyjum) til liðs við sig til að rifja upp hin ýmsu afrek barna á umliðnum árum. Allt frá umhverfisvakningu Gretu Thunberg til baráttu skólabarna í Hagaskóla gegn brottvísun skólasystur sinnar.

Aðgerðir sem kannski aldrei hefðu orðið að veruleika ef krakkarnir hefðu ekki fundið sig knúin til að gera eitthvað og látið rödd sína heyrast. Krakkar eru að sýna að það er ekkert til sem heitir að vera „bara krakki.“

Á tímum þar sem margir vilja afskrifa, þagga niður í eða gera lítið úr skoðunum barna og ungmenna er myndbandið að okkar mati þörf áminning um að stundum ber okkur sem eldri eru bara að setjast niður, hlusta og spyrja okkur síðan: Hvað ætla ég að gera?