Maðurinn sem er talinn hafa fallið í þingvallavatn er belgískur tveggja barna faðir – leitað aftur á morgun

Belgíski ferðamaðurinn sem er talinn hafa fallið í Þingvallavatn á laugardag er 41 árs gamall tveggja barna faðir að nafni Bjorn Debecker. Samkvæmt belgískum fjölmiðlum er hann verkfræðingur og hefur ferðast víða og stundað margvíslega útivist. RÚV greinir frá.

Á laugardag var tilkynnt um mannlausan bát á vatninu og skömmu síðar fannst bakpoki í því. Á laugardegi og sunnudegi var leitað að Debecker, þegar siglt var um allt vatnið og gengið meðfram því. Sú leit bar ekki árangur.

Í frétt RÚV kemur fram að engin leit hafi verið gerð í dag og ekki heldur í gær. Til stendur að leita aftur á morgun, bæði á bátum á vatninu og með því að ganga meðfram því. Á fimmtudag er auk þess gert ráð fyrir því að kafarar reyni að kafa niður að inntaki við Steingrímsstöð. Þetta verður reynt ef veður leyfir.

Fjölskylda Debecker hefur enn sem komið er ekki viljað tjá sig um hvarf hans.