Valdimar bannaði síma í Öldutúnsskóla og breytingin er ótrúleg: Nú leika krakkarnir sér, fara á bókasafnið og tala saman

Valdimar bannaði síma í Öldutúnsskóla og breytingin er ótrúleg: Nú leika krakkarnir sér, fara á bókasafnið og tala saman

Hér á landi hafa nokkrir skólar bannað farsímanotkun á meðal nemenda. Á meðal skóla sem hafa tekið upp algjört farsímabann er grunnskólinn Öldutúnsskóli í Hafnarfirði, þar sem Valdimar Víðisson er skólastjóri.

Bannið í Öldutúnsskóla tók gildi þann 1. janúar á þessu ári og lék Hringbraut forvitni á að vita hvernig hafi tekist til. „Heilt yfir gekk þetta ár, eða helmingurinn af síðasta skólaári, bara mjög vel. Svo sjáum við hvernig þetta fer af stað í haust en við erum bara bjartsýn á að þetta gangi áfram vel,“ segir Valdimar.

Hann segir aðdragandann að ákvörðuninni hafa verið langan. „Við vorum búin að undirbúa þetta vel, með skólaráði þar sem fulltrúar foreldra eiga sæti, foreldrafélaginu, kennurum, stjórn nemendafélagsins og fleirum. Þannig að það er ekki eins og þetta hafi verið skyndiákvörðun. Þetta var að vel ígrunduðu og skoðuðu máli, þá var þessi ákvörðun tekin.“

Reglurnar í Öldutúnsskóla kveða á um að ekki megi nota síma fyrir fyrstu kennslustund dagsins, í frímínútum, hádegishléi, á leið í eða úr íþróttum, í kennslustundum, eftir síðustu kennslustund og í frístundaheimilinu. Ef nemendur koma með farsíma í skólann á að vera slökkt á þeim og þeir ofan í tösku eða í læstum skáp nemenda.

Valdimar segir að eftir að reglubreytingarnar hafi átt sér stað hafi helsta muninn verið að finna í kennslustofunum:

„Það var miklu minna áreiti, bæði á krakkana, truflun frá símunum var nánast engin og því voru afskaplega jákvæð áhrif inni í kennslustofum. Eins hafði þetta þau áhrif líka að krakkarnir dreifðust meira í frímínútum núna. Þau settust yfirleitt á sama staðinn og fóru svolítið í símana sína en núna voru þau farin meira að nýta bókasafnið og gera meira frammi í frímínútunum heldur en bara að vera í símanum, þau voru farin að tala meira saman og fleira í þeim dúr.“

„En auðvitað eins og er bara með reglur almennt þá þurftum við að taka á einhverjum málum en þau voru í raun og veru mjög fá sem þurfti að taka til stjórnenda,“ bætir hann við. „Þetta vannst yfirleitt bara mjög vel beint; kennari við barn eða starfsmaður við barn ef að einhver misbrestur varð á reglunum, þegar þau gleymdu sér eða eitthvað slíkt. Við teljum að þetta hafi gengið svona vel af því að foreldrar almennt séð voru ánægðir með þetta og nemendur höfðu skilning á þessu.“

Valdimar útskýrir nánar hvernig nemendurnir sýndu ákvörðuninni skilning: „Vissulega voru nemendurnir auðvitað ekkert allt of kátir með þetta en þeir höfðu skilning á þessu. Þeir vissu alveg hvað var verið að fara með þessu. Málið er að við vorum ekki að fara þá leið að segja að ef símtæki sést þá yrði bara vesen. Þau höfðu í raun og veru heimild til að hafa slökkt á honum ofan í tösku eða í læstum skáp og nota hann þá eftir að þau voru búin í skólanum. Þannig að þau gátu áfram heyrt í foreldrum sínum eða vinum þegar þau voru búin í skólanum ef einhver þurfti að hafa samband.“

„Það að þeir væru að nota símann í kennslustofum og fleira sást ekki. Annað sem við vorum að merkja, við vorum að eiga við mál í haust þar sem nemendur voru að senda á milli myndir, taka upp og fleira, það er eitt og annað sem getur gerst, við fengum bara ekki slík mál eftir áramót, sem er náttúrulega afskaplega jákvætt,“ bætir hann við.

Valdimar segir nemendurna hafa fylgt banninu afar vel. „Hrós til krakkanna fyrir þetta, þau tóku þessu almennt það vel að það var ekki vandamál, það var ekki verið að reyna að svindla með að vera að reyna að nota símana í stofum og annað. Ef einhver gleymdi sér og starfsmaður sá, þá var þeim nemanda fylgt með símann og hann settur ofan í tösku eða læstan skáp og það var bara þannig. Það voru kannski einstaka tilvik þar sem var sérstakur samningur við foreldra um að síminn kæmi ekkert í skólann af því að barnið var ekki alveg að ráða við þetta. Þá gekk það bara mjög vel líka.“

Jákvæðar breytingar

Hann telur breytingarnar því afar jákvæðar. „Mjög jákvæðar og við ætlum bara að halda áfram að þróa þetta og vinna áfram með krökkunum og starfsmönnunum. Þetta er ekki eitthvað sem við ætlum að hætta við. Fyrsta daginn eftir að krakkarnir komu eftir áramót í janúar þá vorum við alveg tilbúin með að mögulega yrði þetta erfitt, að við þyrftum að grípa inn í hjá mörgum börnum en það var alveg ótrúlegt hvað það þurfti lítið. Við vorum bara hissa í raun og veru hvað þetta gekk vel miðað við hversu háð þau eru þessum tækjum.“

Valdimar segir aðalástæðuna fyrir banninu vera að minnka áreiti í garð nemenda á skólatíma. „Við vorum ekki endilega að horfa til skjátímans sérstaklega, heldur fyrst og fremst áreiti á krakkanna á skólatíma. Við getum auðvitað gert okkar í að sporna við því að þau séu ekki alltaf í þessum tækjum en hugsunin var fyrst og fremst áreitið á börnin, þó það komi auðvitað líka inn í, þetta með skjátímann.“

Aðrir skólar eru farnir að taka við sér. „Svo var ánægjulegt að sjá að það voru skólar hér og utan á landi farnir að ræða þetta og einhverjir kannski svona minni skólar farnir að taka ákvörðun um að banna þetta alveg. Þetta vakti athygli í nóvember/desember á síðasta ári þegar við vorum farin að kynna þetta. Í framhaldi af því sáum við stóra skóla hér og þar um landið þar sem búið er að taka þessa ákvörðun að vel ígrunduðu máli. Mér skilst á þeim skólastjórum sem ég hef rætt við að þetta hafi verið mikið gæfuspor að taka og að þeir ætli ekki að snúa við,“ segir hann.

Hann nefnir sem dæmi skóla í Mosfellsbæ, skóla í Breiðholti, grunnskólann á Seltjarnarnesi, sem hafi kynnt sér hvernig gengi að framfylgja banninu í Öldutúnsskóla, og nokkra skóla á Akureyri. „Þetta er víða farið að verða miklu algengara en þetta var bara fyrir sex til átta mánuðum. Það er greinilega verið að taka við sér í þessu.“

„Við ætlum að þróa þetta áfram hjá okkur með krökkunum. Þetta gefur góða raun og sérstaklega hvað varðar vinnu og vinnufrið í tímum, sem er náttúrulega aðalatriðið í þessu,“ segir Valdimar að lokum.

Reynst vel í öðrum löndum

Í Noregi hafa fjórir af hverjum fimm skólum bannað farsímanotkun hjá nemendum. Skólayfirvöld þar í landi segja bannið hafa virkað mjög vel þar sem nemendur spjalli frekar saman, félagslíf er mun betra og símaleysi hafi jákvæð áhrif á námið. Auk þess séu foreldrar jákvæðir í garð bannsins.

Þetta kemur fram í kynningarblaði Fréttablaðsins í dag, er nefnist Skólar og námskeið. Þar segir einnig að þrátt fyrir að flestir í Noregi séu jákvæðir í garð farsímabanns í skólum bendi sumir á að upp geti komið tilvik þar sem síminn geti nýst sem hjálpartæki við námið.

Farsímabanni í skólum hefur verið komið á í öðrum löndum, til að mynda í Frakklandi, þar sem nú ríkir algjört bann við farsímanotkun í skólum. Þar er vonast til þess að bannið komi í veg fyrir einelti, áreitni, þjófnað og ofbeldi á skólalóðinni. Að auki er banninu ætlað að koma í veg fyrir sendingar á kynferðislegum myndum. Fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins 90 prósent franskra barna eiga farsíma.

Nýjast