Lúsmý herjar á suðurland og flugnafælur seljast upp – „annar hver maður með fullt af bitum“

Lúsmý herjar um þessar mundir á fólk á Suðurlandi og flugnafælur seljast upp jafnóðum í Apótekaranum á Selfossi. Ásóknin er svo mikil í fælur og lyf að starfsmenn hafa þurft að flytja töluvert af þeim úr öðrum apótekum yfir í Apótekarann á Selfossi.

„Það selst allt upp strax og það er annar hver maður hérna með fullt af bitum,“ segir Hjördís Björk Ólafsdóttir, lyfjafræðingur í Apótekaranum á Selfossi, í samtali við Morgunblaðið í dag. Hún segir starfsmenn apóteksins ekki hafa séð annað eins.

Hjördís segir að þekktar flugnafælur á við lavender olíu og tea tree olíu séu löngu uppseldar í apótekinu, og sterakremið Mildison og deyfikremið Xylocain séu það sömuleiðis, en gott þykir að bera þau á flugnabitin.

„Við kaupum hundrað fælur stanslaust en þetta hverfur bara um leið. Þetta er algjör sprenging hérna. Við erum svo nálægt sumarbústaðarlöndunum inni í Grímsnesi þar sem er mikið um mýið,“ segir hún.

Hvað er til ráða?

Moskító- og flugnafælan Moustidose Deet virðist virka best gegn lúsmýinu að sögn Hjördísar. Hún mælir með því að fólk á svæðum þar sem er mikið um lúsmý notist við lavender olíu eða tea tree olíur í glugga og rúmföt. Mikilvægt sé að loka gluggum fyrir klukkan sjö á kvöldin þegar lúsmýið fer á stjá og þá er gott að taka inn ofnæmistöflu og bera Mildison á bitin.

Hildur Björg Ingólfsdóttir, læknir á læknavaktinni í Reykjavík, tekur undir þetta í samtali við Morgunblaðið. Hún áréttar að best sé að taka fyrirbyggjandi ofnæmislyf, sérstaklega ef fólk er viðkvæmt fyrir bitum. „Auðveldara er að fyrirbyggja ofnæmisviðbrögð heldur en að slá þau niður. Þeir sem fá slæm bit eiga að taka ofnæmistöflu daginn áður en þeir fara í bústað og halda áfram að taka töflurnar á meðan þeir eru þar,“ segir Hildur.

Hún bætir við að hún hafi ekki tekið eftir fjölgun fólks sem leiti læknis vegna bita

Hvimleitt kvikindi

Lúsmý er hvimleitt skorkvikindi sem sýgur blóð úr mönnum eins og öðrum þeim dýrum sem það kemst í návígi við. Bitið veldur verulegum útbrotum sem kalla fram mikinn kláða og óþægindi - og eru nokkuð mörg dæmi þess að fólk hafi steypst út í útbrotum á handleggjum, höndum og fótum eftir að hafa verið bitið af pöddunni.