Lögreglan gekk of harkalega fram

Björgvin G. Sigurðsson, ritstjóri Suðra, og Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri DV, voru gestir Lindu Blöndal í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar ræddu þeir helstu fréttamál síðustu daga, þar á meðal mótmæli hælisleitenda síðastliðnar vikur.

Björgvin og Karl eru sammála um að aðgerðir lögreglunnar gagnvart mótmælendunum, þar sem m.a. piparúða var beitt, hafi verið of harkalegar.

Björgvin segist hafa samúð með mótmælunum. „Þau eru fámenn og friðsöm og þau eru að vekja athygli á mjög brýnum málstað. Fólk sem hrekst úr sínum löndum, í stöðu flóttamanns, í öðru landi í öðrum heimshluta, á mjög bágt og býr við mjög erfiðar aðstæður. Hérna kemur það og það öðlast ákveðin réttindi þegar það fær stöðu hælisleitenda. Það stendur auðvitað upp á okkur að aðstæður þeirra á meðan þau eru að bíða séu viðunandi þannig að fólk lendi ekki í meiriháttar andlegri vanheilsu ofan á öll þau áföll sem það hefur áður lent í. Auðvitað eigum við að standa að því með sóma að því hvernig þetta fólk býr á meðan það er að bíða,“ segir Björgvin 

Karl segist ekki hafa samúð með aðgerðunum út af fyrir sig en bendir á að það sé mikilvægt að greina á milli hvers konar hælisleitendur sé um að ræða. „Þeir sem eru að koma hingað skiptast í grófum dráttum í tvo hópa. Þetta er fólk sem er að flýja átök, stríðsátök og annað slíkt, og hins vegar er þetta fólk sem er að koma hingað vegna þess að það er að leita að betra lífi. Við blöndum þessu svolítið saman í umræðunni. Okkur ber að sjálfsögðu að taka á móti þeim sem eru að flýja stríðsátök og gera það sem við getum til að hjálpa þessu fólki. Hinir, sem eru að koma hingað í efnahagslegum tilgangi, það horfir svolítið öðruvísi við.“

Hælisleitendur hafa m.a. kvartað undan aðstæðum að Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem fjöldi þeirra dvelja á meðan þeir bíða afgreiðslu umsókna sinna um hæli. Karli þætti athyglisvert ef einhver sjónvarpsstöð myndi heimsækja blokkina til þess að fá það á hreint hversu eða hvort aðbúnaðurinn sé eins slæmur og hefur verið lýst.

Umræðurnar í heild sinni eru að finna hér: