Lögreglan gagnrýnd: gestir handteknir heimili þeir ekki líkamsleit

Snarrótin sem eru samtök um borgaraleg réttindi og jafnframt félag áhugamanna um opið samfélag, mannréttindi, upplýsingafrelsi og nýjar leiðir í fíknivörnum gagnrýnir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Segja meðlimir að lögreglan hafi mætt með fíkniefnaleitarhund á Secret Solstice í Laugardal. Í tilkynningu frá félaginu segir:

„Svo virðist sem einstaklingum séu gefnir þeir afarkostir að heimila leit ellegar verða handteknir og missa þannig af tónleikum.

Snarrótin minnir á að það þarf dómsúrskurð til að leita á manneskju gegn vilja hennar. Þeir aðilar sem neita leit og eru þar af leiðandi handteknir eiga rétt á bótum sé mál þeirra fellt niður/ekkert finnst á þeim.

Lögmenn Snarrótarinnar bjóða hér með öllum þeim sem lenda í þeim sporum fría lögfræðiaðstoð við að sækja rétt sinn.

Við hvetjum fólk til að deila statusnum og láta orðið berast.“