Logi var sagður illa gefinn bjáni sem hagræddi sannleikanum: „flestir sem tala eru allsgáðir“

Logi Bergmann, einn vinsælasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar, opar sig um það hvernig sé að hafa starfað í faginu í áratugi. Hvernig sumir voru og eru sannfærðir um að blaða- og fréttamenn hagræði sannleikanum og að fólk á barnum víli ekki fyrir sér að halda þrumuræður um ákveðnar fréttir og skoðanir sínar á þeim. Að fjölmiðlamenn hafi misskilið fréttina eða hafi ekki vit á því sem um er fjallað. Logi segir lítið hafa breyst, nema eitt atriði, nú séu þeir sem láti fjölmiðlamenn fá það óþvegið ekki undir áhrifum áfengis. Og af hverju er það. Jú, þeir eru undir áhrifum þriðja orkupakkans, sumir sauðdrukknir af þessum umdeilda pakka og halda sömu ræður og vaggandi gestir bíóbarsins gerðu við Loga fyrir áratugum áður.

Logi lýsir þessu svona í pistli í Morgunblaðinu:

„Stundum þurfti fólk mjög mikið að ræða ákveðnar fréttir eða mál við mig. Það var yfirleitt skemmtilegt enda hef ég oftast mjög gaman af því að tala við fólk, en gat verið býsna þreytandi þegar viðkomandi var aðeins búinn að smakka það. Ég man eftir heilu kvöldunum þar sem ég sat undir því að hafa ekki vit á neinu, segja rangt frá eða vera bara almennt of illa gefinn til að segja fréttir. Og, eins og stundum gerist, þegar fólk er búið að fá sér, þá tapaðist þráðurinn og runan byrjaði aftur frá byrjun. Og aftur. Og aftur.“

Logi bætir við að oft hafi umræðurnar byrjað á þéttu handartaki og það var ekki sleppt, svo Logi kæmist ekki burt. Fyrst var rætt um knattspyrnu, bíómyndir en síðan var farið yfir í kvótakerfið. Og enn var haldið í hönd Loga til að tryggja að hann myndi ekki sleppa og til að tryggja að hann færi ekki fyrr en hann áttaði sig á hvernig sannleikurinn væri í raun og veru. Logi segir:

„Sumir voru sannfærðir um að blaða- og fréttamenn hefðu það að sérstöku markmiði að hagræða sannleikanum og það væri alltaf augljóst að þeir gengju erinda einhverra. Það gerist svo sem enn. Eftir á að hyggja held ég að mér hafi tekist að sýna ótrúlega þolinmæði við þessar aðstæður.“

Logi segir að dregið hafi úr þessu en það megi ef til vill rekja til þess að hann hafi lært að koma sér út úr þessum aðstæðum og einnig dregið úr því að skemmta sér. En nú er staðan aftur sú sama en í dag, eins og hann Logi hafi tekið tímavél aftur til fyrri hluta tíunda áratugarins, nema nú engin flóttaleið. Nema nú er sá sem heldur Loga föstum ekki búinn að fá sér áfengi, heldur er ölvaður af þriðja orkupakkanum. Logi segir:

„Síðustu mánuðir hafa nefnilega farið í sama samtalið. Aftur og aftur. Alveg eins og á barnum í gamla daga gengur það út á að maður hafi ekki vit á þessu eða misskilji að minnsta kosti hlutina svona rosalega,“ segir Logi og bætir við: „Munurinn er samt sá að flestir sem tala eru allsgáðir.“

Þá segir Logi: „Það sem hefur ekki breyst er að rangur hlutur verður ekki réttur þótt þú endurtakir hann í sífellu.“

Logi bætir við að hann geti ekki beðið eftir að atkvæðagreiðslu á mánudaginn, en allt lítur út fyrir að þar verði þriðji orkupakkinn samþykktur. Logi segir.

„En ég er bjartsýnn að eðlisfari og bíð spenntur eftir mánudeginum. Þá verður gengið til atkvæða og við fáum í það minnsta niðurstöðu. Ég er ekki svo bláeygur að halda að menn hætti alfarið að tala um þetta en hjálpi mér, það hlýtur að minnka eitthvað.“

Þá segir Logi að lokum:

„Vonandi getum við svo öll farið að hlakka til skemmtilegra mánaða í umræðum um grænmeti í mötuneytum og fleira í þeim dúr. Ég get ekki beðið.“