Logi: Ungu fólki finnst óhugsandi að vera án þeirra ómældu lífsgæða sem EES hefur fært okkur

Logi: Ungu fólki finnst óhugsandi að vera án þeirra ómældu lífsgæða sem EES hefur fært okkur

„Í gær birtust andlit 272 ungmenna í opnuauglýsingu í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni „Ekki spila með framtíðina okkar!“ Ungt fólk úr öllum áttum finnur sig knúið til að verja sig og sína framtíð gegn einangrunarhyggju og sundurlyndi. Þau eiga það sameiginlegt að telja opið, frjálst og alþjóðlegt samfélag líklegast til lausnar á aðsteðjandi vandamálum.“

Þannig hefst aðsend grein Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann vísar til auglýsingar þar sem ungt fólk hvetur stjórnvöld til að stefna ekki EES samningnum í hættu.

Hann bendir á að undanfarna mánuði hafi ungt fólk einnig farið í loftslagsverkföll til að þrýsta á miklu róttækari aðgerðir í loftslagsmálum. „Þetta er kynslóðin sem mun bera uppi íslenskt samfélag næstu áratugina, fólkið sem þarf að taka til eftir okkur. Nýjustu rannsóknir sýna að á næstu árum ræðst hvort mannkyninu tekst að stemma stigu við loftslagsbreytingum eða við þurfum að fást við skelfilegar afleiðingar þeirra. England og Skotland hafa þegar lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og ljóst er að fleiri þjóðir fylgja í kjölfarið, Ísland líka.“

Logi segir slíka neyðaryfirlýsingu þó duga skammt eina og sér. „Henni þarf að fylgja eftir með róttækri, skýrri stefnumótun, tímasettum aðgerðum, mælanlegum markmiðum og verulegu fjármagni. Ísland á að vera fyrirmynd í loftslagsmálum. Við þurfum að ráðast í aðgerðir sem krefjast breytinga á samfélagsskipan og hegðun okkar til framtíðar – í því felast vissulega áskoranir en líka tækifæri. Við þurfum grænan samfélagssáttmála þar sem enginn getur skorast undan. Hvorki stjórnvöld, sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklingar.“

Hann segir ungt fólk hafa fundið á eigin skinni hversu mikilvægt það sé að eiga í náinni samvinnu við vinaþjóðir í Evrópu. „[Þ]ví finnst óhugsandi að vera án þeirra ómældu lífsgæða og tækifæra sem EES hefur fært okkur. Það áttar sig á að við þurfum á öðrum þjóðum að halda ef framtíðarsamfélag okkar á að vera spennandi og fjölbreytt. Og að baráttan gegn loftslagsbreytingum krefst enn nánara alþjóðasamstarfs, eins og aðrar áskoranir nútímans.“

„Hlustum á ungt fólk og tökum þátt í því að tryggja þá framtíð sem það kallar eftir. Byggjum upp betra, opnara, frjálsara, grænna og alþjóðlegra samfélag,“ segir Logi að lokum.

Nýjast