Logi skammar ragnar: „hjá sumum hefur nánast allt verið á leiðinni lóðbeint til helvítis“

„Nú væri sennilega frábær tími til að taka skófluna af Ragnari Önundarsyni svo hann hætti að grafa sig dýpra og dýpra. Það er hreinlega ekki einleikið hvað hann er mikill sérfræðingur í að sýna hæfni sína í mannlegum samskiptum. Eða ekki. Sérstaklega þegar kemur að einum þingmanni.“

Þetta segir Logi Bergmann í pistli í Morgunblaðinu. Þar gagnrýnir Logi Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóra, harðlega. Ragnar hefur í tvígang á rúmu ári beint spjótum sínum að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur þingmanni og ritara Sjálfstæðisflokksins. Fyrir um einu og hálfu ári gagnrýndi hann gamla mynd sem Áslaug þar sem hún skartaði blautu hári og hún hafði notað á Facebook. Nýverið sagði Ragnar svo Áslaugu vera sætan krakka. Logi tekur upp hanskann fyrir Áslaugu í Morgunblaðinu og segir:

„Það byrjaði á því að honum fannst Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki gefa rétt mynd af sér sem stjórnmálamanni á Facebook. Eins og hún væri að senda skilaboð. Tímasetningin var einstaklega merkileg, í miðri #metoo-umræðunni. Í kjölfarið lifnaði myllumerkið #ekkiveraragnar.

Þetta var ekki nóg fyrir okkar mann. Hann fann sig knúinn í vikunni til að greina áhrif prófkjöra á stjórnmálin með þeim hætti að „glæsilegasta konan væri varaformaður og sætasti krakkinn væri ritari“. Sætasti krakkinn er einmitt Áslaug Arna, sem er reyndar á svipuðum aldri og Ragnar var þegar hann varð bankastjóri. Ferli hans í viðskiptum lauk reyndar í obbolitlu samráði. En það er önnur saga.“

Er Logi þarna að vísa til þess að Ragnar Önundarson var sakaður um ólögmætt samráð. Í grein í Viðskiptablaðinu frá árinu 2011 segir: „Tölvupóstsamskipti fyrrum forstjóra Vísa og Eurocard, þeirra Halldórs Guðbjarnarsonar og Ragnars Önundarsonar, sýna hvernig þeir skiptust á upplýsingum um verðskrá og gengi félaganna með það að markmiði að takmarka samkeppni á milli þeirra.“

Logi heldur áfram: „Einhver hefði haldið að nú væri þetta komið gott. En, nei, ekki alveg. Áslaug fór í viðtal í hlaðvarpi og sagði þar að metnaður sinn í stjórnmálum stæði til þess að verða forsætisráðherra. Svona einhvern tímann í framtíðinni.

Þetta finnst Ragnari ómögulegt. Þeir sem sækjast eftir frama svona ungir eiga ekki að fara á þing. Þeir eiga að fara til sálfræðings. Enda að mati Ragnars algjörlega fáránlegt að einhver láti sig dreyma um frama á þessu sviði.“

Logi segir að ef það væri einungis Ragnar sem hagaði sér með þessum hætti mætti hlæja að málflutningi hans.

„En það er því miður enginn skortur á kallpungum sem vita allra best hvað er að í þessu þjóðfélagi og búa einmitt yfir lausnunum,“ segir Logi og heldur áfram: „Sem væri heppilegt ef þeir hefðu ekki sjálfir verið bara mjög virkir í stjórnmálum og viðskiptum. Með umdeilanlegum árangri.  Þetta hefur ekkert með aldur að gera. Miklu frekar viðhorf sem virðist þrungið af biturð og reiði yfir því að hafa ekkert með málin að gera.“

Logi segir að viðhorfið hjá þeim sem hafa haft völd sé á þá leið að um leið og þau séu ekki lengur til staðar eða menn hætti sökum aldurs líti þeir svo á að allt sé á niðurleið.

„Og hjá sumum hefur nánast allt verið á leiðinni lóðbeint til helvítis síðan þeir hættu að hafa einhver völd og áhrif.“

Þá segir Logi Bergmann:  „Þá myndi ég halda að það væri skynsamlegt að reyna að rifja upp hvernig var að vera ungur. Spenntur og óþolinmóður yfir að fá tækifæri og fullur af nýjum og spennandi hugmyndum. Vilja breyta og bæta og gera samfélagið nútímalegra, opnara og lýðræðislegra.“

Logi segir að lokum:

„Það vill nefnilega svo til að þessum yngri kynslóðum, sem fara svona í taugarnar á þessum mönnum (því þetta eru nánast alltaf karlar), hefur að mörgu leyti tekist þetta. Þær hafa nýtt sér þau tækifæri sem þær hafa fengið og náð að auka jafnrétti, fordómaleysi og gegnsæi. Svo eitthvað sé nefnt.  Mér finnst það nú bara býsna gott hjá þessum krakkabjánum.“