Logi pedro ósáttur út í vesturbæinga: „hvernig getur það verið að allur vesturbærinn sofi og segi ekki neitt“

„Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað mikið um ummæli Björgvins Stefánssonar og kynþáttaníð sem hann lét falla í beinni útsendingu á vefmiðlinum Haukar TV. Óþarfi er að hafa þau ummæli eftir honum en fyrir áhugasama er tiltölulega auðvelt að finna þau. Aganefnd KSÍ tók málið fyrir og dómur féll í síðustu viku - 5 leikja bann. Þetta mál allt saman er merkilegt og hægt er að rýna mikið í það, enda vakti þetta upp mikil viðbrögð. Það sem kemur undirrituðum þó helst á óvart í þessu máli eru viðbrögð Knattspyrnufélags Reykjavíkur, sem og stuðningsmanna þeirra.“

Þetta segir tónlistarmaðurinn Logi Pedro í harðorðum pistli á vefsíðu útvarps 101. Ástæðuna má rekja til þess að Björgvin Stefánsson, leikmaður KR í knattspyrnu, viðhafði rasísk ummæli þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar í knattspyrnu á YouTube rás Hauka á dögunum. Björgvin, sem baðst skömmu síðar afsökunar fékk fimm leikja bann fyrir vikið. Björgvin sagði eftirfarandi um Archange Nkumu, enskan leikmann Þróttar sem er dökkur á hörund, þegar hann lýsti leiknum:

 „Þetta er það sem ég er alltaf að segja, það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum.“

KR fór fram á að aganefnd KSÍ vísaði málinu frá og að leikmanninum yrði ekki gerð refsing. Eins áfrýjaði KR dómnum sem féll, en áfrýjunardómstóll KSÍ staðfesti hins vegar dóminn. Logi Pedro er ósáttur við að KR hafi áfrýjað dómnum og gagnrýnir Rúnar Kristinsson þjálfara liðsins:

„Enginn skal efast um það að Rúnar Kristinsson er fínn náungi, fyrrum landsliðshetja og leiðtogi. Hann baðst afsökunar á ummælunum fyrir hönd félagsins, rétt eins og KR, en eftirfylgnin var þó önnur. Og þvílíkt sem þjálfara KR, sem og félaginu, fatast flugið í þessu máli.

Umræðan um það hvernig KSÍ tæki á atvikinu fór einhverra hluta vegna að snúast um fordæmi sem aganefnd KSÍ hafði sett í fyrri dómum. Eins og það væri sjálfsagt að sleppa við refsingu á svona skýru broti, með tilliti til fyrri dóma. En verum skýr hérna: Allt tal um fordæmi aganefndar er þvættingur. Svona umbúðalaust kynþáttaníð hefur ekki komið fram síðustu ár í íslenskum fótbolta, og hvað þá dokúmenterað svona vel - orð fyrir orð á upptöku.“

Logi telur að hægt hefði verið að afgreiða málið á einni viku með því að taka fulla ábyrgð á ummælunum.

„En að tala brotið niður, fara fram á enga refsingu og áfrýja svo dómnum er versta mögulega vegferð sem KR gat lagt í,“ segir Logi og gagnrýnir síðan KR og Vesturbæinn eins og hann leggur sig. Logi segir að lokum:

„Eins vekur það furðu hversu litla gagnrýni stuðningsmenn KR hafa sett fram á sitt ástkæra félag. Hvernig getur það verið að allur vesturbærinn sofi og segi ekki neitt þegar að stórveldið þeirra stendur ekki í lappirnar gegn hatursorðræðu?“