Lögblindir í klóm fátæktar

„Reiðin er að splundrast í eitthvað sem maður myndi trúlega sjá eftir,“ segir Sigurlaug Guðrún I. Gísladóttir, móðir þriggja lögblindra pilta á Blönduósi.

Sigurlaug var gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Hún ritaði harðorðan pistil í Morgunblaðið á dögunum þar sem hún segir syni sína dæmda til ævilangrar fátæktar vegna þess að þeir hafi fæðst lögblindir og tilheyri því þeim hópi sem kallist öryrkjar.

Tveir yngri synir Sigurlaugar á þrítugsaldri búa heima hjá henni og fá 194.000 á mánuði frá Tryggingastofnun til að lifa af. Elsti sonurinn, 35 ára, býr í leiguhúsnæði en þrátt fyrir að fá meira útborgað frá Tryggingastofnun heldur en yngri bræður sínir hefur hann lítið milli handanna, undir 100.000 kr. til að lifa af út mánuðinn vegna t.d. leigu, hita og rafmagns.

Króna-á-móti-krónu skerðingin

Þrátt fyrir örorku frá fæðingu leitast allir synirnir eftir því að vinna en þá kemur til króna-á-móti-krónu skerðingin; það sem þeir vinna sér inn er mestmegnis tekið af bótunum. „Þær skerðast bara á móti. Þeir geta unnið ótrúlega mikið en það kostar þá líka ótrúlega mikið, bæði heilsufarslega og að koma sér til og frá vinnustað þar sem það er engin ferðaþjónusta,“ segir Sigurlaug. Í pistlinum kallar hún eftir tafarlausri afnemingu þessarar skerðingar, ellegar skuli þeir ráðamenn sem hafi lofað skerðingunni segja af sér.

„Þeir upplifa það mjög niðurlægjandi að vinna en fá ekkert upp úr krafsinu. Miðsonurinn var að byrja í nýrri vinnu í morgun, í nýja gagnaverinu á Blönduósi við að setja upp tölvubúnað. Þetta er áhugasvið hans, þetta langar hann að gera en hann fær nánast ekkert fyrir það,“ bætir hún við.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur árum saman reynt að fá stjórnvöld til að leiðrétta þessa skerðingu en í pistlinum segist Sigurlaug einnig vera reið út í ÖBÍ, sem láti teyma sig á asnaeyrunum. Í viðtalinu í kvöld segist hún telja nóg komið af samræðum, þær hafi staðið svo lengi og hafi ekki skilað neinu.

Viðtalið við Sigurlaugu í heild sinni er að finna hér að neðan: