Lögbannsmálið fyrir hæstarétt í dag

Í dag verður tekið fyrir í Hæstarétti hið svokallaða lögbannsmál. Glitnir HoldCo ehf. höfðaði mál gegn Stundinni og Reykjavík Media vegna umfjöllunar sem byggði á gögnum úr þrotabúi Glitnis, þar á meðal um viðskipti Bjarna Benediktssonar fyrir hrun. Sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann á umfjöllunina að beiðni Glitnis HoldCo en lögbannið hefur síðan verið dæmt ólögmætt fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti.

Fréttablaðið greinir frá.

Lögbannið var upphaflega sett á af Sýslumanninum þann 13. október 2017. Héraðsdómur úrskurðaði lögbannið ólögmætt 2. febrúar 2018 og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu þann 5. október 2018. Glitnir HoldCo vill eftir sem áður lögbann á umfjöllunina á grundvelli ákvæða um bankaleynd og reynir nú að fá vilja sínum framgengt á þriðja dómstigi.

Munnlegur málflutningur hófst fyrir hádegi í dag og er tekist á um hvort viðurkennt verði að fjölmiðlum sé óheimilt að byggja fréttir á gögnunum og hvort þeim beri að afhenda þau.