Loftgæði fara batnandi – styrkur svifryks lækkað á höfuðborgarsvæðinu

Umhverfisstofnun hefur tekið saman upplýsingar um loftgæði á Íslandi og ná upplýsingarnar fram til ársins 2017. Í nýrri skýrslu ásamt fylgiriti kemur fram að loftgæði séu heilt yfir nokkuð mikil á Íslandi og að þau hafi farið batnandi síðustu ár. Ársmeðaltalsstyrkur svifryks hefur til að mynda farið lækkandi á höfuðborgarsvæðinu frá því að mælingar á efninu hófust.

Samkvæmt skýrslunni á sólarhringsstyrkur svifryks það til að fara yfir heilsuverndarmörk, einkum þegar þurrt er og stillt í veðri eins og var oft árið 2017. Sömu sögu er að segja um köfnunarefnisdíoxíð, en árið 2017 fór efnið oftar yfir sólarhringsmörkin á Grensásvegi en leyfilegt er. Umhverfisstofnun telur líklegt að það megi rekja til mikillar vetrarstillu það ár. Hinsvegar er ársmeðaltalsstyrkur köfnunarefnisdíoxíðs vel undir heilsuverndarmörkum, og hefur verið frá því að mælingar á efninu hófust.

Þá er styrkur brennisteinsdíoxíðs almennt mjög lágur í þéttbýli en hærri í kringum iðnað. Styrkurinn hefur þó farið lækkandi í kringum iðnað síðustu fimm ár. Styrkur brennisteinsvetnis, sem rekja má til jarðvarmavirkjana og -svæða, hefur haldist nokkuð stöðugur á þeim stöðum sem efnið er mælt og er undir öllum heilsuverndarmörkum efnisins.

Ársskýrslan, ásamt fylgiritinu „Loftgæði á Íslandi – Umhverfisvísar, vöktun og uppsprettur,“ er fyrsta samantekt sinnar tegundar á Íslandi.