Ljúga því að Bjarni Ben geti gert þig ríkan: „Þeir bókstaflega hata mig fyrir að fjárfesta í þessu!“ - Falsa Facebook-færslu fjármálaráðherra

Ljúga því að Bjarni Ben geti gert þig ríkan: „Þeir bókstaflega hata mig fyrir að fjárfesta í þessu!“ - Falsa Facebook-færslu fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra getur gert þig ríkan. Það segir að minnsta kosti í umfjöllun á vefsíðu sem gefur sig út fyrir að vera tæknihluti CNN fréttaveitunnar, CNN Tech. Ef betur er að gáð kemur í ljós að „frétt“ þessi, sem er í ofanálag á íslensku, er lítið annað en þvælan ein, og er í raun og veru birt á síðu sem kallast enrichlove.me. Um er að ræða tilraun til að hafa af fólki peninginga á ólöglegan hátt og hafa verið sagðar fréttir af svipuðum uppátækjum svikahrappa áður. Þannig var rithöfundurinn landsþekkti, Ólafur Jóhann Ólafsson, eitt fórnarlamb falsfrétta sem og Björgólfur Thor Guðmundsson. Nú er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nýttur í þessa svikamyllu.

Fyrirsögnin er á þessa leið: „Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson fjárfesti 6 milljónum evra í nýju fyrirtæki sem getur gerti þig ríka(n) (ef þú fæddist milli áranna 1950 og 1990)!“ Glöggir lesendur hafa eflaust rekið sig á að hér er um sígilt gabb að ræða, þar sem svindlarar notast við Google translate þýðingarvélina með það fyrir augum að reyna að hafa fé af grunlausum aðilum.

Gabbið í þessu tilviki snýst um að reyna að fá fólk til þess að fjárfesta í nokkru sem kallast BITCOINERA. Í fyrstu er kallað eftir 220 evra fjárfestingu og þá eiga peningarnir fljótlega að byrja að flæða inn.

Gert er að því skóna að Bjarni mæli heilshugar með því að fjárfesta í BITCOINERA og honum lögð orð í munn. Til að mynda á hann að hafa sagt:

„Það er umdeild fjárfesting, vegna þess að bankasamfélag heimsins vill ekki að almennir vinnumenn hafi aðgang að svo miklum auð utan kerfisins. Þeir bókstaflega hata mig fyrir að fjárfesta í þessu! Og þeir munu hata mig enn meira fyrir að auka vitund um þetta mikla tækifæri fyrir hversdagslegt íslenskt fólk.”

Því er svo bætt við að þetta hafi Bjarni sagt hlæjandi. Ýmsu er auk þess tjaldað til og þar á meðal er sérstaklega útbúið gerviskjáskot af því sem á að vera Facebook síða Bjarna:

Allt reynt

Til að reyna að gulltryggja að fólk trúi því sem fyrir augu ber er bæta svindlararnir á bak við síðuna ýmsu öðru við. Þar á meðal er þessi mynd af manni sem á að heita Andri Oddsson:

 

Undir myndinni stendur: „Andri Oddsson, faðir 1 barns, var efins í fystu um þetta tækifæri til að græða pening heima hjá sér, en það kom í ljós að það var "besta ákvörðun lífs hans“

Hann trúir ekki lukku sinni. Haft er eftir „Andra“: „Í fyrstu hélt ég að þetta væri brandari, og að græða pening heima væri bara draumur, en ég ákvað að prófa það samt sem áður, vegna aðstæðna minna. Ég sá þetta myndband og skráði mig svo. Eitthvað nýtt, peningurinn á reikningnum mínum hækkuðu! Ég gat ekki trúað því, ég hélt aldrei að ég myndi fá greiðslu, sérstaklega ekki svona mikið!“

Andri er auk þess svo hugulsamur að útbúa leiðbeiningar fyrir nýja notendur:

Að lokum er klykkt út með kostulegri runu athugasemda, með dyggri hjálp Google translate sem fyrr. Sérstaka athygli vekja Kristín og Jónína, sem vill svo til að eru með sömu forsíðumynd á Facebook-síðum sínum… af karlmanni. Elín sem svarar Kristínu er vitanlega líka með mynd af karlmanni. Engu að síður er fellur reglulega fólk fyrir þessum blekkingum og því mikilvægt að benda á þær.

Fjallað um rafmyntir í 21 í kvöld

Í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld var svo fjallað um rafmyntir. Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka, og Hlynur Þór Björnsson, stofnandi og stjórnarformaður Rafmyntaráðs Íslands, verða gestir Bjartmars Odds Þeys Alexanderssonar. Þar leiða þeir áhorfendur í allan sannleik um rafmyntir, hvað ber að varast og hvernig hægt sé að færa sér þær í nyt.

Nýjast