Ljós í myrkri fjárhagsáhyggja: sparnaðarhópur aldísar fer á flug: „það er gott að fá hjálp til að vinna bug á vandamálunum"

Aldís Buzgó stofnaði hópinn „Sparnaðar tips“ þann 15 október á síðasta ári í þeirri von um að geta fengið góð ráð til þess að spara. Nýlega fór hópurinn að spyrjast út og fjöldi fólks að sækja um aðgang en í dag telur hann 2260 manns. 

„Hann varð í raun ekki virkur fyrr en bara núna fyrir stuttu. Fyrst langaði mig bara til að stofna hópinn til að geta sjálf fengið góð ráð varðandi sparnað, en fólk sem ég þekki hefur líka leitað ráða hjá mér þegar það hefur heyrt af fjárhagskreppum sem ég hef lent í og sérstaklega núna í seinni tíð eftir að við keyptum okkar fyrstu íbúð á seinasta ári. Svo hvers vegna ekki að reyna allt eins að hjálpa öðrum?“ Segir Aldís í samtali við Hringbraut. 

Allir eru að spara fyrir einhverju

„Í dag vil ég að þessi hópur sé einkum vettvangur þar sem fólk getur skipst á góðum ráðum og velt hlutunum fyrir sér, svo fólk geti náð markmiðum sínum og að þeir sem eiga erfitt fjárhagslega sjái ljós í myrkrinu og eignist von um betra og áhyggjuminna líf.“

Aldís segir alla vera að spara fyrir einhverju og að hópurinn sé til þess gerður að aðstoða fólk til þess. 

„Ég er engin Pollýanna, en mig langar til að trúa því að alltaf sé hægt að gera aðeins betur. Erfiðleikar eru oft óhjákvæmilegir en við viljum að þeir séu bara tímabundið ástand og þá er gott að fá hjálp til að vinna bug á vandamálunum. Það er dýrt að búa á Íslandi í dag og það gleður mig að fólk geti hjálpast að. Hér getur fólk deilt reynslu sinni, gefið góð ráð eða sett inn spurningar til að ná markmiðum sínum.“