„litli skítur, litli skítur, hvar ert þú?“

Björn Þorfinnsson er nýr pistlahöfundur á Hringbraut. Björn er alþjóðlegur meistari í skák og var lengi fréttastjóri á DV við góðan orðstír. Þessa dagana er Björn staddur á skákmóti á Írlandi þar sem hann stefnir á að ná síðasta áfanga að stórmeistaratitli í hús. Við gefum Birni orðið.

„Dagur tvö að kveldi kominn og tveir sigrar í húsi. Ég er því efstur í mótinu ásamt hópi stórmeistara með 3 vinninga af þremur.

Í fyrri umferðinni mætti ég öðrum jafnaldra móður minnar, Anthony Fox. Fyrir skömmu síðan tapaði ég hörmulegri skák í ákveðinni byrjun og síðan þá hafa margir andstæðingar mínir valið að herja á þann meinta veikleika. Refurinn gamli rann á blóðlyktina. Ég ákvað því yfir borðinu að bregðast við með öðrum hætti og lék hræðilegum leik strax í þriðja leik!

Staðan var erfið og um tíma vissi ég vel að með bestu taflmennsku Fox væri ég í miklum vandræðum. Ég varðist þó eins vel og mér var unnt og reyndi að koma í veg fyrir áætlanir hans. Um tíma fann ég enga aðra valkosti en að segja bara “pass” og leika mönnunum fram og tilbaka. Frekar niðurlægjandi en þetta er sjúkur leikur, skákin. Að lokum varð Fox óþolinmóður og þvingaði fram uppskipti sem slepptu mér úr snörunni. Eftir það tefldi ég af miklum krafti og plaffaði refinn niður eins og breskur aðalsmaður.

Á mótinu teflir bara eitt undrabarn. Ellefu ára hollenskur piltur af kínverskum ættum. Ég hafði með skelfingu horft á hann slátra andstæðingum sínum í tveimur fyrstu umferðunum og óskaði þess heitt að mæta honum ekki. Að sjálfsögðu vorum við svo paraðir saman í þriðju umferð. Mér féllust hendur og örvænting tók við. Tómið heimtir alla.

Til þess að vinna bug á mínum helsta ótta þurfti ég að leita svara í perlum heimsbókmenntanna. Sögunum um Harry fokking Potter. Í einni bókinni segir frá kennslustund þar sem Harry og félagar hans þurfa að berjast gegn Boggarti. Veru sem breytir sér í verstu martröð þess sem stendur andspænis henni. Í mínu tilviki væri það barn við skákborð. Lausnin sem krökkunum er kennd er að varpa galdrinum Riddikulus á kvikindið sem gerir það að verkum að veran verður fáránleg með einhverjum hætti og með háðinu hverfur óttinn.

Á meðan skák minni við barnið stóð raulaði ég því í huganum fallega gamla barnavísu með örlitlum breytingum.

Raulið var á þessa leið: „Litli skítur, litli skítur, hvar ert þú?“ Og svo ímyndaði ég mér að litli drengurinn stykki fram, brosandi út að eyrum og sönglaði: “Hér er ég, hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn”. Þar með var barnið ekki lengur ógnvekjandi sem var mikilvægur áfangi.

Að auki þurfti ég að beita öðrum leiðum. Sá stutti hafði þann sið að líta mjög reglulega upp og virða mig fyrir sér. Í hvert sinn sem hann gerði það þá horfði ég hvasst á móti þar til hann bugaðist og leit undan. Þannig náði ég sálrænum undirtökum í skákinni og gjörsamlega pakkaði barninu (og minni verstu martröð) saman.

Hér er skákin, smelltu hér.

Margir eru eflaust á því að slík aðferðarfræði sé ekki fullorðnum manni sæmandi. En því er öðru nær, að mínu mati. Ég valdi mér erfiða leið í lífinu fyrir keppnisþörf mína.

Auðvelda leiðin hefði verið að hlaupa um skríkjandi í búningi á eftir bolta. Kjassa
og knúsa liðsfélaganna þegar vel gengi en kenna þeim um ef illa færi. Ég valdi leik þar sem ég þarf að há djöfullegar vitsmunabaráttur við börn þar sem sjálfsmynd mín er undir í hverri skák og ég þar að lifa með hverjum mistökum. “Chess is mental torture,” sagði Kasparov og vissi alveg um hvað hann var að tala.

Fjórða umferð fer fram á morgun kl.13.00 og verður skákin (gegn einhverjum stórmeistara) í beinni útsendingu. Ég er í vígahug. Lengi lifi J.K. Rowling.“