Listería í laxa- og rækjusalati frá sóma

Listería greindist í laxa- og rækjusalati frá Sóma ehf. Sómi hefur ákveðið að innkalla salatið af markaði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Listería greindist við reglulegt eftirlit á fyrirtækinu og á innköllunin eingöngu við eina framleiðslulotu með pökkunardegi 6. mars og best fyrir dagsetningu 16. mars.

Listería getur orsakað sjúkdóm sem kallast listeriosis, bæði hjá mönnum og dýrum. Einkenni sjúkdómsins hjá mönnum eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og sjúkdómurinn getur einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, en þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.