Listería fannst einnig í reyktum laxi og bleikjuafurðum

Listería hefur greinst í reyktum laxi  og bleikjuafurðum frá Ópal Sjávarfangi. Fyrirtækið hefur innkallað vörurnar af markaði í samráði við Matvælastofnun, sem varar við neyslu á þeim. Nýverið greindist listería í graflaxi frá sama fyrirtæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Vörurnar sem um ræðir eru Ópal birkireyktur laxabiti og laxaflök, Ópal reyktar laxasneiðar (100 gr. og 300 gr.), Ópal reyktur laxaafskurður, 400 gr. Ópal reykt fjallableikja í sneiðum, 100 gr. og fjallableikja í bitum.

Neytendum sem keypt hafa vörurnar er bent á að neyta hennar ekki og skila henni til fyrirtækisins gegn endurgreiðslu. 

Í tilkynningunni segir að Matvælastofnun hafi stöðvað dreifingu til bráðabirgða á umræddum vörum og graflaxi frá Ópal Sjávarfangi þann 5. febrúar s.l. á meðan rannsókn stendur yfir. Dreifing og markaðssetning verði ekki heimil fyrr en stofnunin hefur fengið staðfest að listería greinist ekki í framleiðsluferlinu.