Lilja: „það er mikið í húfi fyrir okkur að stuðla að öflugu og kraftmiklu menntakerfi“

Framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Angel Gurría fundaði með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í morgun. Gurría tók þátt í ráðstefnu um uppbyggingu velsældarhagkerfa sem haldin var í samstarfi forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, WellBeing Economy Governments (WEGo) samtakanna og OECD í dag, auk þess sem hann kynnti nýja skýrslu stofnunarinnar um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Menntamál eru sérstakur áhersluþáttur í skýrslunni að þessu sinni. 

Í skýrslunni koma fram ýmsar ráðleggingar um hvernig bæta megi menntakerfið á Íslandi. Þær snúa meðal annars að leiðum til þess að stuðla betur að nýtingu hæfni svo koma megi í veg fyrir aukið ójafnvægi á vinnumarkaði, auka samspil og samvinnu menntakerfis og atvinnulífs og hvetja til endurmenntunar, ekki síst hjá þeim sem ekki eru langskólagengnir.

„Á fundi okkar fórum við yfir helstu áhersluatriði í menntakafla skýrslunnar og ræddum um árangursríkar leiðir til úrbóta á ýmsum sviðum. Við erum til að mynda einhuga um mikilvægi góðs lesskilnings, að hann sé lykill að framtíð landsins. Við erum komin vel á veg með ýmislegt sem snýr að þörfum úrbótum í íslensku menntakerfi. Ég fagna skýrslunni sem kynnt var í dag, hún er greinargóð og ítarleg og styður á margan hátt þær áherslur sem við höfum þegar markað. Það er mikið í húfi fyrir okkur að stuðla að öflugu og kraftmiklu menntakerfi, þannig eflum við samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og stuðlum að áframhaldandi lífsgæðasókn og velsæld,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.