Lífeyrissjóðirnir sáu við sölumönnum hlutabréfa í arion-banka

Örvæntingarfull tilraun var gerð til að selja íslenskum lífeyrissjóðum allt að 10% hlut í Arionbanka en án árangurs.

 

Mikið gekk á í síðustu viku og reyndu seljendur að senda misvísandi skilaboð í gegnum fjölmiðla um að svo og svo margir lífeyrissjóðir væru spenntir fyrir að kaupa. Það átti að leiða til þess að áhugi annarra sjóða ykist og leiddi til kaupa. Staðreynd málsins er hins vegar sú að lífeyrissjóðirnir höfðu engan áhuga á að kaupa hlutabréf í banknum.

 

Fyrir því eru nokkrar ástæður:

 

Í fyrsta lagi fóru áður fram viðræður um kaup lífeyrissjóðanna á allt að þriðjungshlut í bankanum. Þær viðræður stóðu yfir frá hausti 2015 og fram á árið 2017 þegar eigendur bankans slitu viðræðum fyrirvaralaust til að selja erlendum vogunarsjóðum meirihluta í bankanum. Sú framkoma þótti óviðunandi og hefur ekki verið fyrirgefin. Geymt en ekki gleymt.

 

Í öðru lagi finnst lífeyrissjóðunum allt of mikil orðsporsáhætta fylgja því að kaupa hluti í Arion-banka eftir Sílikonhneykslið í Helguvík þar sem bankinn tapaði milljörðum og ráðstafaði fé lífeyrissjóða sem eru í vörslu bankans að auki. Það mál er mörgum þyrnir í augum. Þó vitað sé að búið er að gjaldfæra tapið af þessari fjárfestingu í bankanum, er það útbreidd skoðun að nýjir fjárfestar komi ekki að bankanum fyrr en hreingerning hefur farið fram vegna Helguvíkurhneykslisins. Talið er óhjákvæmilegt að Höskuldur Ólafsson bankastjóri og allir framkvæmdastjórar bankans verði að víkja áður en mögulegt sé að selja hlutafé í bankanum.

 

Í þriðja lagi hafa menn áttað sig á því að stórkostlegar tæknibreytingar eru framundan í viðskiptabankastarfsemi sem mun leiða til þess að afkoma hennar mun rýrna stórlega og þar með framtíðarverðmæti viðskiptabanka almennt. Þá ríkir óvissa um lagaumgjörð viðskiptabanka hér á landi í framtíðinni. Viðskiptabankastarfsemi þykir því alls ekki spennandi fjárfestingarkostur. Í ljósi þess er það verð sem Arion-banki hefur verið boðinn á allt of hátt. Lífeyrissjóðunum er þetta allt saman ljóst og þeir munu því ekki láta plata inn á sig hlutabréfum í bankanum á því verði sem var í boði. Hugsanlega munu einhverjir þeirra kaupa hlutabréf í bankanum síðar, en þá á mun lægra verði.

 

Þegar ekki tókst að selja hlutabréf í bankanum var brugðið á það ráð að samþykkja á hluthafafundi í dag að greiða út 25 milljarða arð eða kaupa eigin hlutabréf. Góðu fréttirnar eru þær að Ríkissjóður Íslands á 13% í bankanum og ætti því að fá rúma 3 milljarða í sinn hlut af greiddum arði.

 

Vondu fréttirnar eru hins vegar miklu stærri: Íslenska ríkið á bæði Landsbankann og Íslandsbanka, auk 13% í Arion. Þessar eignir okkar landsmanna eru þegar byrjaðar að rýrna í verði og munu rýrna enn frekar og hratt á næstu mánuðum og missirum vegna þeirra miklu tæknibreytinga sem eru að verða á viðskiptabankastarfsemi í heiminum.

 

Ríkisstjórnir Íslands hafa beðið of lengi og sofið á verðinum, hver fram af annarri.

 

Rtá.