„leyndin er alvarlegust\"

„Kjarni málsins í mínum huga eru ekki nöfn þessara valinkunnu manna heldur miklu frekar hvernig að það virðist sem að þessi stjórnsýsluframkvæmd hafi verið undanfarin ár að það gildir einu hvað stendur í þessum bréfum. Það er nokkurs konar færiband sem gildir“, segir Svandís Svavarsdóttir á Þjóðbraut í kvöld. Svandís, ásamt Brynjari Níelssyni ræddu mál vegna uppreist æru fyrrum sakamanna og hvernig stjórnsýsluframkvæmd er með þeim málum. Bréf með meðmælum fyrrum sakamanna segir Svandís einkennast af færibandavinnu.

Brynjar Níelsson er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG situr í sömu nefnd.

Brynjar og Svandís ræddu mál Róberts Downey sem kom inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og málsmeðferðir fyrrum sakamanna sem sækja um uppreist æru.

Menn sem sækja um uppreist æru geta sótt um slíkt þegar fimm ár eru liðin frá afplánun dóms og með meðmælum þriggja manna með óflekkað mannorð.

 „Þessi leynd elur á tortryggni“, segir Svandís og vísar þar í að nefndin hafi verið bundin þagnarskyldu um hverjir mæla með uppreist æru og nöfn slíkra manna séu ekki opinber, líkt og í máli Róberts. Svandís sagði Brynjar kynda undir tortryggni í málinu með því að gera lítið úr því að beðið hafi verið um gögn um mál Róberts.

„Ég taldi þessi gögn ekki skipta máli“, segir Brynjar um gögn í máli Róberts. „Þau skipta auðvitað engu máli“.

„Það að biðja um gögn í einu máli á eru menn að gera þetta eina mál að dagskrármáli“, segir hann. Brynjar segist telja að skoða þurfi aðallega hvernig menn sem fá uppreists æru fá starfsréttindi aftur líkt og Róbert sem fékk lögmannsréttindi sín á ný.  

 

Þjóðbraut hefur göngu sína að nýju eftir sumarhlé. Þátturinn er á milli 21 og 22 og í umsjón Lindu Blöndal.