Leit haldið áfram í dag – gera tilraun til þess að kafa á morgun

Um klukkan 17 í dag munu björgunarsveitarmenn og lögreglan á Suðurlandi hefja leit að nýju í þeirri von að finna belgíska ferðamanninum Bjorn Debecker, sem er talinn hafa fallið í Þingvallavatn á laugardag. Vísir greinir frá því að ekkert hafi verið leitað síðan í hádeginu á mánudag vegna slæmra veðurskilyrða, en mikill vindur hefur komið í veg fyrir að unnt sé að framkvæma leit.

Áætlað er að leitin í dag muni standa fram á tíunda tímann í kvöld. Björgunarsveitarmenn munu stunda yfirborðsköfun og þá verður dróna flogið yfir vatnið ef veður leyfir. Leitarmenn munu einbeita sér að suðurenda Þingvallavatns, þar sem Villingavatn er.

Þá er búist við því að sérsveitarmenn kafi í vatninu á morgun, finnist Debecker ekki í dag eða í kvöld. Svo þeim sé það kleift og þeir verði ekki í hættu verður að slökkva á Steingrímsstöð, þar sem er virkjað fall Efra-Sogs úr Þingvallavatni í Úlfljótsvatn. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson í samtali við Vísi.

Á laugardag var tilkynnt um mannlausan kajak á Þingvallavatni og skömmu síðar fannst bakpoki í vatninu. Auk þess virðist sem Debecker hafi gist í tjaldi við norðanvert vatnið. Talið er að hann hafi fallið útbyrðis úr kajaknum á vatninu.

Debecker, sem er 41 árs gamall tveggja barna faðir og menntaður verkfræðingur, er reyndur ferðamaður sem hefur ferðast til yfir 50 landa. Fjölskylda Debecker hefur enn sem komið er ekki viljað tjá sig um hvarfið eða leitina.