Leikur nýtt flugfélag sér að eldinum eða mun það leika við hvern sinn fingur?

Rétt er að óska nýju – væntanlegu – flugfélagi velfarnaðar í upphafi starfsins. Við skulum gera ráð fyrir að starfsemin sé byrjuð þótt flug með flugvélum félagsins eigi ekki að hefjast fyrr en einhvern tíma síðar.

Maður lyftir þó brún yfir ýmsu varðandi þetta (væntanlega?) félag. Fyrst er það nafnið PLAY. Hversvegna svona augljóslega enskt nafn? Eða hvað, er þetta ekki enska? Er þetta kannski skammstöfun? Fyrir hvað þá?

Ekki er að sjá á boðuðum áætlunum um starfsemina að forsvarsmenn félagsins séu jafn miklir reynsluboltar í flugrekstri og þeir segjast vera. Þeir boða fyrsta flug í janúar næstkomandi. Þá eru allajafnan minnst umsvif í farþegaflugi í okkar heimshluta, sérílagi til og frá Íslandi. Þá er líka íslenska hagkerfið í niðursveiflu og kaupmáttur minnkandi. Og – síðast en ekki síst – þeir ætla að herja á sama ofnýtta markaðinn og bæði Icelandair og Norvegian (auk allnokkurra annarra flugfélaga) gjörnýta nú þegar, það er hinn örsmáa íslenska heimamarkað og sólarþrá Íslendinga.

Túristi.is segir frá því að forsvarsmenn félagsins hafi boðað að fyrst um sinn yrði flogið til sex evrópskra áfangastaða, þar af tveggja sólarstaða „ ... sem væru Íslandingum kunnir.“ Túristi gerir ráð fyrir að það séu Alicante og Tenerife. Á þá staði er talsvert framboð af flugi frá Icelandair og Norvegian. Þá segir turisti.is að leiða megi líkur að því að aðrir áfangastaðir í Evrópu verði Berlín, París, London og Kaupmannahöfn. Og svo á Ameríka að koma seinna.

Forsvarsmenn PLAY ku vera fyrrum starfsmenn WOW Air sem fór kyrfilega á hausinn. Ætli þeir hafi ekkert lært af hrakförum þess félags? Að ætla sér að hefja gríðarlega mannaflsfrekan og fjárfrekan rekstur í háum áhættuflokki, beinlínis á versta tíma og inn á gjörnýttan örmarkað er ekki traustvekjandi. Ekki eykur það bjartsýni á að vel geti gengið þegar helstu fréttir af fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins eru að það hafi enn ekki náð að fjármagna sig til að hefja reksturinn.

Við skulum vona að ISAVIA og Samgöngustofa standi vaktina betur en í tilfelli WOW og láti PLAY ekki safna milljarða skuldum eða fá endalausa fresti til að sýna fram, á fjárhagslega getu til að stunda flugrekstur með farþega.

En – eftir stendur spurningin: Er ekki í kortunum að fara á hinn risastóra alþjóðamarkað og markaðssetja Ísland fyrir erlenda ferðamenn? Þar er ferðamannastraumurinn svo tröllaukinn í allar áttir að eitt agnarlítið flugfélag með tvær flugvélar í byrjun ætti ekki að ógna neinu jafnvægi og kannski með þeirri markaðssetningarstefnu að eiga auðveldara með að safna fé til rekstrarins? Að óbreyttu eru áætlanir PLAY manna helst í ætt við háskaleik nema fram komi upplýsingar sem geta sannfært okkur um að áætlanir þeirra geti staðist og það án þess að valda stórskaða á örlitla markaðnum sem fyrir er hér á landi.