Leikdómur: ógeðslega góð sýning

Uppsetning Þjóðleikhússins á leikverkinu Hleyptu þeim rétta inn, sem frumsýnt var í gærkvöld er með eftirminnilegustu sýningum þess á síðustu árum. Ekki einasta kemur verkið sjálf á óvart, heldur og sérlega geislandi, hrífandi og kraftmikill leikur aðalleikendanna, að ógleymdri snjallri leikmynd, ljósum og tónum.

Í sem fæstum orðum er þetta ógeðslega góð sýning í bestu merkingu þeirra lýsingarorða sem hér fylgja einni og sömu setningunni. Það sumpart margtæmda minni sem blóðsugan er á sviði, tjaldi og bókum lifnar hér við með svo óvenjulega sannferðugum hætti að áhorfandinn getur ekki annað en hrifist með. Óvænt vinfengi blóðsugu við undirokaðan dreng er hlaðin vísunum og táknum. Og vel að merkja; galin atburðarásin gengur einfaldlega upp. 

Galdur sýningarinnar felst þó öðru fremur í sjálfri uppfærslunni; samspili tónlistar og myndbanda, leikmyndar og ljósa sem ber hugvitssemi og fagmennsku vitni - og raunar í svo stórum skömmtum að það hríslast um mann sæluhrollur á köflum. Hér sannast enn einu sinni hvað tæknivinnsla í íslensku leikhúsi er orðin framsækin og fyllilega á pari við það sem best þekkist á stærstu sviðum.

Og leikurinn, maður lifandi, hvergi er þar veikan blett að finna, en má ég þó öðru fremur hampa tveimur leikurum; sjaldan hef ég séð tvö ungmenni eiga sviðið með þvílíkum tilþrifum og Lára Jóhanna Jónsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson sýndu áhorfendum Þjóðleikhússins í gærkvöld í rullum blóðsugunnar Elí og stráksins Óskars. Ekkert feilpúst, fjarri því, heldur þvert á móti rífandi sjálfstraust í hverri einustu hreyfingu upp og niður sviðið, í hvaða svipmóti sem var, hverju orði, öllum áherslum og skýrmælgi.

Ég gekk inn á sýninguna með varann á mér; jæja, einhver vampýrusýning úr sænskri bók ... en gekk út lýstur galdri leikhússins, nánast dáleiddur.

Fjórar stjörnur, minnst - og takk fyrir mig.

-SER.