Leiðtogasirkusinn heldur áfram

Fimm munu berjast um að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík næsta vor. Kosning fer fram innan flokksins þann 27 janúar. Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir gefa kost á sér ásamt Viðari Guðjohnsen, Eyþóri Arnalds og Vilhjálmi Bjarnasyni.

 

Vænta má snarprar kosningabaráttu þann stutta tíma sem er til stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík glímir við mikinn vanda sem óhætt er að tala um sem kreppu. Fylgið hefur hrunið úr því að vera lengi í kringum 50% og niður í fjórðung. Margir óttast að í komandi kosningum geti flokkurinn farið niður fyrir 20% í fyrsta skipti sem er staða sem forystumenn flokksins vilja helst ekki leiða hugann að.

 

Enginn þeirra fimm sem gefa kost á sér til að leiða lista flokksins er líklegur til að geta rétt hlut Sjálfstæðisflokksins í borginni. Flokksins bíður áframhaldandi eyðimerkurganga í minnihluta næstu fjögur árin. Allt bendir til þess að Dagur B. Eggertsson haldi velli sem borgarstjóri. Engu að síður verður hart tekist á um forystusætið hjá Sjálfstæðisflokknum. Eyþór Arnalds er frambjóðandi Morgunblaðsins en hann á sæti í stjórn Árvakurs sem gerir blaðið út fyrir sægreifana sem eiga reksturinn. Sjálfstæðismenn í Reykjavík munu taka afstöðu til þess hvort þeir vilja að Árvakur eigi leiðtoga listans eða ekki. Gert er ráð fyrir að Eyþór muni opna kosningaskrifstofu og hafa uppi mikla starfsemi, líkt og Davíð Oddsson gerði í forsetakosningunum 2016 en Eyþór var í forsvari fyrir framboðið ásamt Ara Edwald forstjóra Mjólkursamsölunnar. Davíð náði fjórða sæti í forsetakjörinu með 13% atkvæða þrátt fyrir mikla og dýra kosningabaráttu. Væntanlega munu sömu aðilar kosta baráttu Eyþórs og lögðu framboði Davíðs lið. Þar er ekki síst um að ræða sægreifa og landbúnaðarmafíu kringum Morgunblaðið.

 

Kjartan Magnússon og stuðningsmenn eru einnig líklegir til að standa fyrir öflugri baráttu. Þeir eru vanir því og kunna til verka. Andrés bróðir Kjartans hefur verið einn helsti starfskraftur Skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins og verið framarlega í flokki þeirra sem hafa búið til og dreift óhróðri um andstæðinga eins mjög tíðkaðist sl. haust með myndböndum um “Skatta-Kötu” og annað á slíku plani. Andrés þekkir allar leiðir og kann til verka á þessu lágkúrulega sviði. Fróðlegt verður að sjá hve langt hann og aðrir ganga í að rifja upp fortíð mótframbjóðenda á sviði vafasamra viðskipta, lifnaðarhátta og afglapa sem hafa orðið opinber.

 

Vilhjálmur Bjarnason á sennilega traustari hóp miðaldra og eldri stuðningsmanna í flokknum en menn gera sér almennt ljóst. En það eru einmitt miðaldra og eldri flokksmenn sem taka þátt í prófkjörum innan flokksins. Villi gæti átt eftir að koma á óvart enda er hann þjóðþekktur fyrir störf sín á Alþingi og margháttuð baráttumál.

 

Áslaug Friðrikisdóttir er eina konan í þessum fimm manna hópi. Það gefur henni visst forskot. Þá er hún með langan feril að baki innan borgarstjórnar og býr því að verðmætri reynslu, eins og Kjartan gerir. Þá skyldu menn ekki gleyma því að hún er dóttir Friðriks Sophussonar, fyrrum varaformanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra til margra ára. Stjórnmálaferill Friðriks er einstaklega farsæll og vinsældir hans í flokknum voru engu líkar. Hún mun njóta góðs af því.

 

Áslaugar, Kjartans, Eyþórs eða Vilhjálms mun bíða það vanþakkláta hlutverk að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins í minnihluta í Reykjavík næstu fjögur árin.

 

Rtá.