Leiðrétta þarf „vitleysu kjararáðs“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í grein á vefsíðu samtakanna að hægt sé að koma í veg fyrir upplausn á vinnumarkaði með því að Alþingi leiðrétti vitleysu kjararáðs, eins og hann orðar það. 

„Hið opinbera er leiðandi í launaþróun, það er staðreynd,“ segir Halldór Benjamín og telur að Alþingi þurfi að bregðast við.

„Þar er unnt að bregðast við úrskurði kjararáðs, þar er unnt að leiðrétta vitleysuna, þar er unnt að tryggja að ekki verði upplausn á vinnumarkaði. Þar sitja ábyrgir fulltrúar almennings sem hljóta að taka heildarhagsmuni fram yfir sína eigin. Annars rísa þeir ekki undir þeirri ábyrgð sem þeim var falin”, segir Halldór Benjamín.

 Píratar hafa lagt til frumvarp í þessa veru. Því var hafnað í dag í atkvæðagreiðslu að það yrði tekið á dagskrá í dag. Þess var óskað með stuttum fyrirvara.