„Nú er rétti tíminn til að lækka skatta og draga úr launatengdum gjöldum“

„Nú er rétti tíminn til að lækka skatta og draga úr launatengdum gjöldum“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er skattastefna ríkisstjórnarinnar gagnrýnd harðlega og þykir höfundi löngu tímabært að lækka skatta. 

„Lítið fer fyrir umræðum um skatta hér á landi þrátt fyrir hve háir þeir eru og hve mjög þeir hafa hækkað frá því að vinstri stjórnin tók við árið 2009. Þær miklu og fjölmörgu skattahækkanir sem þá dundu á þjóðinni, réttlættar með skyndilegum efnahagserfiðleikum, hafa flestar haldið sér, jafn undarlegt og það er,“ segir í leiðaranum.

Leiðarahöfundi finnst undarlegt að skattur á fjármagnstekjur hafi verið hækkaður enn meira. „En það er ekki aðeins að þær hafi haldið sér, í tíð núverandi ríkisstjórnar var jafnvel stigið það skref að hækka skatt á fjármagnstekjur enn frekar.“

Bent er á að enn sé beðið endurskoðunar skattstofns eftir þessa skattahækkun. „Í nýlegri umfjöllun Samtaka atvinnulífsins er minnt á að þessi skattur hafi í fyrra verið hækkaður úr 20% í 22% „undir því yfirskini að skattstofninn yrði endurskoðaður. Nú rúmlega ári síðar hefur slík endurskoðun ekki farið fram. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi rými til að lækka skatta og draga úr launatengdum gjöldum – nú er rétti tíminn.““

Leiðarahöfundur er sammála áliti SA og segir: „Nú er rétti tíminn til að lækka skatta og draga úr launatengdum gjöldum, en varla verður sagt að nokkuð bóli á slíku. Samtök atvinnulífsins benda sérstaklega á í umfjölluninni um fjármagnstekjuskattinn að ólíkt því sem oft mætti ætla af umræðunni sé skattbyrði fjármagns svipuð og skattbyrði launa og skattbyrði fjármagns hér á landi sé ekki endilega minni en annars staðar á Norðurlöndum þó að því sé oft haldið fram.“

„Hið fyrrnefnda stafi af því að þó að skatthlutfall fjármagns sé lægra en launa, 22% á móti 36,94% eða 46,24% eftir launum, þá þurfi að taka tillit til annarra þátta, svo sem persónuafsláttar, sem lækkar meðalskattprósentu launamanna verulega. Þá gleymist í umræðunni að arður sé ekki greiddur nema hagnaður sé af fyrirtækjum og þá sé fyrst greiddur 20% tekjuskattur áður en arðurinn sé greiddur út og svo sé fjármagnstekjuskatturinn greiddur af því sem eftir er. Að teknu tilliti til þessa sé „eiginleg skattbyrði arðgreiðslna því 37,6% en ekki 22%“,“ er útskýrt.

Leiðarahöfundur bætir við: „Um hið síðarnefnda segja Samtök atvinnulífsins að reglur um fjármagnstekjuskatt séu mun flóknari annars staðar á Norðurlöndum en hér á landi, þar séu fjölmargar undanþágur og skattur jafnvel aðeins greiddur af ávöxtun sem sé umfram svokallaða áhættulausa ávöxtun, það er að segja ávöxtun ríkisbréfa. Þetta þýðir að meðalskattprósentan í þessum löndum er mun lægri en virðist við fyrstu sýn.“

Að lokum er ítrekað að kominn sé tími til að lækka skatta. „Meginatriðið er að skattar eru almennt mjög háir hér á landi og þar bera bæði ríki og sveitarfélög sök. Báðir þessir aðilar verða að fara að vinna af alvöru að lækkun skatta, jafnt á fyrirtæki og almenning, vilji þeir efla íslenskt atvinnulíf og stuðla að aukinni velsæld almennings.“

Nýjast