Leggjum ekki árar í bát

Rannsókn Innri endurskoðunar Reykjavíkur á framkvæmdum við Nauthólsveg 100 lauk skömmu fyrir jól. Síðan þá hefur mikil umræða verið um skýrslu endurskoðanda en hún er einmitt til umræðu á fundi borgarstjórnar sem stendur nú yfir.

Það er alveg makalaust að verkefni á vegum borgarinnar geti farið upp á vitlausa löpp í upphafi og fái að halda þannig áfram svo mánuðum og jafnvel árum skipti. Það er ljóst að áætlanagerð var ekki rétt, upplýsingagjöf var ábótavant og á stundum voru veittar rangar upplýsingar, auknar fjárheimildir voru ekki sóttar þegar á þurfti að halda og þannig mætti áfram telja. Það sjálfstæða líf sem þetta verkefni eignaðist, og fékk að eiga, er algjörlega á svig við allar þær leikreglur sem hér gilda. Þetta lítum við í Viðreisn ekki bara alvarlegum augum heldur erum við einfaldlega steinhissa á að slíkt geti gerst.

Ég fagna skýrslunni og þakka Innri endurskoðun fyrir þá góðu rannsókn sem þau hafa gert og skilað af sér. Hún sýnir að það er bara eitt í stöðunni. Við í Viðreisn munum ekki leggja árar í bát heldur gera það sem við komum hingað til að gera. Einfalda kerfið, bæta þjónustu og tryggja ábyrgan rekstur. Og við erum byrjuð. Ég, sem formaður borgarráðs, leiði nú vinnu við endurskoðun á stjórnkerfi og skipuriti borgarinnar. Niðurstaðan mun líta dagsins ljós fljótlega. Við munum auka gegnsæi og skilvirkni, efla innkauparáð og annað eftirlit, tryggja að unnið sé eftir réttri umboðskeðju og að fjárstreymi verkefna verði bundið við samþykktar áætlanir.

Að lokum langar mig þó að nefna að verkefnið sjálft, sem snéri að endurgerð húsa, var jákvætt og afrakstur þess er mikil borgarprýði. Enda er ekki um að ræða kofa og klósett, eins og sumir kjörnir fulltrúar hafa viljað láta í veðri vaka, heldur þvert á móti fleiri hundruð fermetra sem í dag hýsa veitingastað, fyrirlestra- og fundasal og margt fleira sem mun nýtast borgarbúum, háskólasamfélaginu og skapandi greinum. Semsagt - markmiðið var gott, enda var um það þverpólitísk sátt á sínum tíma, en vegferðin fór algjörlega út um þúfur og slíkt má ekki endurtaka sig.