Leggja til 40 aðgerðir vegna húsnæðisvanda

Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði hefur skilað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra tillögum sínum. Hópurinn leggur fram 40 tillögur í sjö flokkum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Tillögurnar 40 er að finna í skýrslu átakshópsins. Flokkarnir sjö eru eftirfarandi:

  1. Almennar íbúðir
  2. Húsnæðisfélög
  3. Leiguvernd
  4. Skipulags- og byggingarmál
  5. Samgönguinnviðir
  6. Ríkislóðir
  7. Upplýsingamiðlun

Hópurinn telur óuppfyllta íbúðaþörf nú vera á bilinu 5.000 – 8.000 íbúðir á landinu öllu. Bent er á að mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis sé hins vegar fyrirhuguð á næstu árum þar sem um áætlað er að um 10.000 íbúðir verði byggðar á árunum 2019 – 2021. Gangi þessar áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf minnka til muna en hún verður engu að síður um 2.000 íbúðir í upphafi árs 2022.

Hópurinn bendir á að þrátt fyrir mikla uppbyggingu séu vísbendingar um að það framboð sem nú er að myndast muni síður henta tekju- og eignalágum. Stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst. Í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fermetraverð er lægra virðist mest vera byggt af stærri íbúðum sem geta þar með síður talist hagkvæmar. Því sé nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar.

Átakshópurinn var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur og hóf störf 5. desember síðastliðinn. Hópinn skipuðu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar forsætis-, fjármála- og efnahags- og félagsmálaráðuneytis. Formenn hópsins voru Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.