Leggja líklega fram gagntilboð í sameiningu

VR, Efl­ing­, Verka­lýðsfé­lag Akra­ness og Verka­lýðsfé­lag Grinda­vík­ur munu líklega leggja fram gagntilboð í sameiningu við tilboði Samtaka atvinnulífsins til lausnar kjaradeilunnar á milli þeirra. Efling hefur þegar tilkynnt um að félagið muni leggja fram gagntilboð á fundi milli þeirra hjá ríkissáttasemjara í dag og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ýjar að því að hin félögin muni gera slíkt hið sama. Mbl.is greinir frá.

Stéttarfélögin stilla nú saman strengi fyrir fundinn sem hefst klukkan 11:15. Aðspurður um hvort VR hyggist líka leggja fram gagntilboð á fundinum segir Ragnar Þór í samtali við Mbl.is að félögin hafi vísað deilunni áfram saman og séu í þessu í sameiningu.

Í gagntilboði Eflingar segir að komið sé til móts við kaup­hækk­un­ar­boð Sam­taka at­vinnu­lífs­ins með því skil­yrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreyt­ing­ar. Þær breytingar sem vísað er til eru tillögur Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar að skattkerfisbreytingum, þar sem lagt er til að tekju­skatt­ur á 90 prósent al­menn­ings mynd lækka og að tekju­hæstu fimm pró­sent­in myndu greiða hærri tekjuskatt. Auk þess krefst Efling þess að skattbyrði tekjulægstu hópa verði með öllu aflétt eigi síðar en árið 2021.

Því stefnir allt í að stjórnvöld þurfi að koma að kjaradeilunni með beinum hætti svo unnt sé að leysa hana, eins og Ragnar Þór hefur bent á og kallað eftir undanfarnar vikur.

Morgunblaðið greindi einnig frá því í morgun að Starfsgreinasambandið hafi fengið sambærilegt tilboð frá Samtökum atvinnulífsins, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær því verður svarað.