Launahækkunin algjör dómgreindarbrestur

Bankastjórn Landsbankans hefur sýnt af sér algjöran dómgreindarbrest með launahækkun til handa bankastjóra bankans á undanförnum misserum, enda er 82ja prósenta hækkun eins taktlaust og hugsast getur og kemur þar að auki á versta tíma í miðjum viðkvæmum kjaraviðræðum.

Þetta er mat þeirra Jóns Kaldal, fyrrverandi ritstjóra Iceland Magazine og Fréttablaðsins, og Stefáns Einars Stefánssonar, fréttastjóra Viðskipta á Morgunblaðinu, sem voru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 í gærkvöld.

Þeir bæta við að fráleitt sé að bera fyrir sig kjarastefnu innan bankans. Eðlilegast af öllu væri að formaður stjórnar bankans stigi fram og bæðist afsökunar á þessu og drægi launahækkunina til baka, ellegar segði af sér.

Þátturinn er endursýndur í dag og einnig sjáanlegur á hringbraut.is undir flipanum sjónvarp / 21.