Laun Ármanns hækkuðu um 33%

Mánaðarlaun bæjarstjóra Kópavogs hækkuðu um 612 þúsund milli ára:

Laun Ármanns hækkuðu um 33%

Mánaðarlaun Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra í Kópavogi, hækkuðu um 612.000 krónur í fyrra og námu tæpum 2,5 milljónum króna, í stað tæplega 1,9 milljóna á mánuði árið áður. Fréttablaðið greinir frá þessu.
 
Laun bæjarstjórans hækkuðu því um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017, en laun annarra bæjarfulltrúa um 30 prósent. Í fréttinni kemur fram, að Kópavogsbær hafi fryst laun bæjarfulltrúa skamma hríð í kjölfar umdeildrar hækkunar kjararáðs á þingfararkaupi, en laun sveitarstjórnarfólks taka víða mið af því. Þingfararkaupið hækkaði um 44 prósent á einu bretti 1. nóvember 2016 en í Kópavogi, eins og í mörgum sveitarfélgöum öðrum, var tekin ákvörðun um að fylgja ekki sjálfkrafa því fordæmi. Þess í stað var sett af stað endurskoðun á launakjörum bæjarfulltrúa á vegum bæjarins.
 

Niðurstaða þeirrar vinnu var að hækka laun almennra bæjarfulltrúa um 30 prósent í stað 44 prósenta, en heildarlaun bæjarstjórans hækkuðu lítið eitt meira sem fyrr segir og námu árslaun hans árið 2017 tæplega 30 milljónum króna.  Heildarlaunagreiðslur til hinna bæjarfulltrúanna 10, að launatengdum gjöldum undanskildum, hækkuðu úr 56,6 milljónum árið 2016 í 73,9 milljónir árið 2017, sem þýðir að meðallaun bæjarfulltrúa hafa numið um 616.000 krónum á mánuði.

Nýjast