Lárus orðinn langalangalangafi – sex ættliðir á lífi

Þann 7. júlí eignuðust þau Fannar Óli Þorvaldsson og Heba Rós Fjeldsted sitt fyrsta barn, heilbrigða stúlku. Fannar er á 18. aldursári og og Heba á 19. aldursári. Það merkilega við þessa fæðingu er að með henni eignaðist Lárus Sigfússon, sem fagnaði 104 ára afmæli þann 5. febrúar síðastliðinn, barnabarnabarnabarnabarn. Lárus er því langalangalangafi stúlkunnar og alls eru sex ættliðir á lífi.

Morgunblaðið greinir frá þessum merku tímamótum í dag. Ættliðirnir sex eru: Lárus Sigfússon 104 ára, Gréta Lárusdóttir 78 ára, Hjalti Júlíusson 60 ára, Þorvaldur Hjaltason 41 árs, Fannar Óli Þorvaldsson 17 ára og stúlka Fannarsdóttir, þriggja daga gömul.

Lárus er elsti núlifandi karlmaðurinn á Íslandi og getur í desember næstkomandi slegið aldursmet systkina ásamt systur sinni, Önnu Sigfúsdóttur. Anna er  101 árs í dag og geta þau systkinin slegið met Margrétar og Fil­ipp­usar Hann­es­ar­barna frá Núpsstað, sem urðu sam­an­lagt 206 ára og 119 daga.

Ekki algengt

Ekki er algengt að sex ættliðir séu á lífi á sama tíma en Jónas Ragnarsson, ættfræðingur sem heldur úti Facebook-síðunni „Langlífi“, segir í samtali við Morgunblaðið að alls sé vitað um fimm tilvik þegar sex ættliðir hafa verið á lífi á sama tíma. Þau tilvik komu upp árin 1974, 1989, 2008, 2010 og svo núna.

Jónas segir að til þess að mögulegt sé að sex ættliðir séu á lífi á sama tíma þurfi sá elsti í röðinni að vera um hundrað ára þegar sá yngsti fæðist og að kynslóðabilið þurfi þar af leiðandi að vera um tuttugu ár að meðaltali.

Hjalti Júlíusson, langafi stúlkunnar var á svipaðri blaðsíðu í febrúar þegar hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að nauðsynlegt væri að byrja snemma í barneignum til þess að ná sex ættliðum.

Jónas tekur undir þetta og segir að það sem sex ættliða fjölskyldur eigi sameiginlegt sé að þar stofni margir ættliðir í röð til barneigna á unga aldri. Oftast sé um að ræða elsta afkomanda hverrar kynslóðar. Hann bendir einnig á að algengara sé að fimm ættliðir séu á lífi og að oftar sé það í kvenlegg.