Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna fyrirhugaðrar málsóknar þeirra gegn Báru Halldórsdóttur, sem tók upp samskipti þeirra á Klaustri. Héraðsdómur hafði hafnað kröfunni þann 19. desember síðastliðinn en þingmennirnir áfrýjuðu skömmu síðar til Landsréttar. Stundin greinir frá.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar fellur málskostnaður á þingmennina fjóra, þau Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson, Bergþór Ólason og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur.

Bára hafði stigið fram í viðtali við Stundina þann 7. desember síðastliðinn og viðurkennt að hún hafi tekið upp samskiptin á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Í viðtalinu segir hún að sér hafi brugðið þegar hún heyrði hvernig þingmennirnir töluðu og því byrjað að taka upp án þess að hugsa það neitt lengra. Hún telur það hafa verið rétt að upplýsa almenning um samskiptin og segist eftir á að hyggja vera stolt af því.

Þegar þingmennirnir fjórir áfrýjuðu til Landsréttar kom fram í Stundinni að Reimar Snæfells Pétursson, lögmaður þeirra, telji að ásetningur Báru sé einbeittur og trúverðugleiki hennar enginn. Hann telji að Bára hafi farið á Klaustur bar með það fyrirfram gefna markmið að njósna um og taka upp samtöl þingmannanna. Telur Reimar ásamt þingmönnunum fjórum að frásögn Báru af atburðum kvöldsins standist ekki skoðun og vilja þau fá úr því skorið hvort hún hafi verið ein að verki eður ei.