Landsbankinn og íslandsbanki spá frekari lækkun stýrivaxta

Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn spá því að Seðla­banki Íslands muni á­fram lækka stýrivexti á næstunni. Frá þessu er greint í Markaðnum. Sem kunnugt er lækkaði Seðlabankinn stýrivexti bankans um 0,5 prósent í síðasta mánuði. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru nú 4 prósent.

Í stýrivaxtaspá Ís­lands­banka er því spáð að peninga­stefnu­nefnd muni lækka vexti um 0,25 prósent við næstu vaxta­á­kvörðun, sem verður greint frá þann 26. júní næst­komandi. Auk þess er því spáð að stýri­vextir muni halda á­fram að lækka, lík­lega um 0,5 prósent á síðari hluta ársins.

Í nýrri þjóðhagsspá hagfræðideildar Lands­bankans kemur fram að greiningar­aðilar bankans telji að stýrivaxtalækkun síðasta mánaðar hafi verið fyrsta skrefið í stýrivaxta­lækkunar­ferli bankans. Er því spáð að peninga­stefnu­nefnd Seðlabankans muni lækka vexti um alls 1 prósent í skrefum á næstunni.

„Við teljum að það sem helst muni hafa á­hrif á á­kvörðunina nú sé annars vegar veiking krónunnar, sem dregur heldur úr líkum á vaxta­lækkun, og hins vegar lækkun verð­bólguvæntinga fyrir­tækja, sem styður við að næsta skref í lækkun vaxta verði tekið,“ segir í spánni.