Við erum æði misjöfn á morgnana

Einn af fastagestum sjónvarpsþáttarins Heimilið, sem er á dagskrá Hringbrautar öll föstudagskvöld og fjallar um rekstur, viðhald og sparsemi í heimilishaldi, er fjölskylduráðgjafinn Kári Eyþórsson - og í síðasta þætt kennir hann áhorfendum kúnstina að koma sér fram úr á morgnana.

Þáttinn má nú sjá á vef stöðvarinnar, en þar segir Kári að morgunsárið geti verið gæðastund, mikilvægt sé að gefa sér góðan tíma uppi í rúmi til að vakna og hugleiða þar verkefni dagsins áður en stigið sé fram úr. Einnig sé áríðandi að virða þarfir og lundarfar hvers og eins á morgnana, æði margir þurfi næði og tíma til að koma sér í fötin, til dæmis sá drjúgi hópur krakka sem búi við mikla tilfinningagreind, en óvarlegt sé að hasta á þá og skamma fyrir seinlæti; þeir þurfi einfaldlega meiri tíma á morgnana en rökvísa týpan sem snarar sér í fötin og þaðan beint í eldhúsið. 

Aðalatriðið sé að fólk gefi sér tíma á morgnana, en strunsi ekki út með jógúrtdósina í annarri hendi og maskarann eða greiðuna í hinni á meðan reynt er að stjórrna bílnum áleiðis í vinnuna. Árdegið sé einmitt sá tími dags þegar hugurinn er hvað skýrastur og best til þess fallinn að taka góðar og réttar ákvarðanir. Í því ljósi sé einmitt óráð að nota ekki bítið til að koma sér vel og vandlega inn í daginn.

Kári verður á sínum stað í Heimilinu klukkan 20:00 í kvöld.