Krummi var beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla – „Mikið um refsingar og einelti“

Krummi var beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla – „Mikið um refsingar og einelti“

Krummi Björgvinsson tónlistarmaður rifjar upp hvernig hann var beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi þegar hann gekk í Landakotsskóla. Hann segir að mikið hafi verið um refsingar og einelti. Krummi slapp við kynferðislegt ofbeldi en segir mörg skólasystkina sinna ekki hafa verið svo heppin.

Krummi greinir frá þessu í færslu á Facebook síðu sinni.

„Ég var beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu Séra Georg, Margréti Müller og af honum Hirti „smíðakennara“ þegar ég gekk í Landakotsskóla. Það var líka mikið um refsingar og einelti. Ég slapp við kynferðislegt ofbeldi en ég get því miður ekki sagt það sama um öll hin skólasystkini mín þrátt fyrir að Séra Georg reyndi það einu sinni með því að strjúka á mér lærið mjög nálægt klofi mínu með lostafullu augnaráði. Það má segja að ég brást mjög illa við og snögg reiddist en einhverra hluta vegna brást ég ekki eins við þegar hitt ofbeldið átti sér stað. Maður bara tók því eins og maður ætti það skilið. Eins fráleitt og það er,“ skrifar hann.

Hann segir mögulegt að það að foreldrar hans hafi verið þjóðþekktir hafi komið í veg fyrir enn alvarlegra ofbeldi í sinn garð. „Mig grunar að þau hafi verið smeyk við foreldra mína því pabbi var þekktur og virtur af mörgum í þjóðfélaginu. En það stoppaði ekki Margréti eða Georg að slá mann utan undir eða klípa mann mjög fast í handlegginn við minnsta tilefni. Ég tel að börnin sem minna mega sín urðu oftast fyrir barðinu á þeim.“

Þegar Krummi gekk í Landakotsskóla voru grófustu brot Margrétar og Séra Georgs að baki. „Sem betur fer voru Margrét og Séra Georg ekki eins afkastamikil í ofbeldinu á þessum tíma en þau voru á forðum, kannski vegna sökum aldurs og vitundarvakningu fólks gagnvart kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. En særandi orðbragð og niðurlæging var daglegt brauð. No pun intended.“

Hann rifjar upp eitt atvik sem situr í honum: „Ég man sérstaklega eftir einu atviki sem kom upp í smíða kennslu þar sem ég var að segja fyndna sögu við bekkjarsystkini mín, sem ég átti til með að gera því ég naut þess að að gleðja alla í kringum mig og láta fólk hlægja. Þetta fór auðvitað í taugarnar á honum Hirti „smíðakennara“. Hann læddist aftan að mér með gaffer límbands rúllu og byrjaði að líma yfir allt andlitið á mér, flissandi. Mér brá auðvitað og byrjaði að gráta og þá skellti hann upp úr og hló hömlulaust í nokkrar mínútur. Ég reyndi af bestu getu að fjarlægja lím bandið en það reyndist mér erfitt því það reif upp húð og hár en á endanum tókst mér það. Ég var bara ellefu ára polli, sjáðu til. Svona uppákomur voru í daglegu lífi nemenda í Landakotsskóla. Auðvitað sagði ég móður minni frá þessu og hún gjörsamlega sturlaðist og fór niðrí skóla og lét þau fá það óþvegið og eineltið hætti um stund en svo hófst það aftur stuttu eftir.“

Krummi segist ekki vita hvort Hjörtur sé enn á lífi en að hann hafi eitt sinn reynt að hafa uppi á honum. Krummi hafði ekki erindi sem erfiði og Hjörtur virtist hafa horfið af yfirborði jarðar. Hann segir það líklega fyrir bestu, „…því ég hefði hugsanlega barið hann til óbóta og ég endað í fangelsi. Reiðin var það mikil.“

Hann segir mikilvægt að byrgja hlutina ekki inni. „Í dag er ég ennþá smám saman að kljást við reiði og gremju frá þessum árum en tónlistin, konan mín, vinir og fjölskylda hafa hjálpað mér gífurlega mikið að vinna úr þessu. Fæ alltaf vægan sting í magann þegar ég sé ljósmynd af Séra Georg og Margréti Müller eða þegar ég á leið framhjá Landakoti. Ég talaði um reynslu mína í fyrsta skipti opinberlega í viðtali við DV og MBL fyrir ekki svo löngu. Það var gott að ræða þetta og ekki finna til skammar. Það er alltaf gott að tala um hlutina í staðinn fyrir að byrgja þá inni. Það má segja að ég slapp vel frá þessu miðað við aðra og fyrir það er ég þakklátur.

Krummi segir heimildarmynd um Séra Georg og Margréti á leiðinni og fagnar því. „Núna verður loksins gerð heimildarmynd um Séra Georg og Margrét Müller og þeirra hrottalega framferði gagnvart þolendum og hvað gekk á þarna öll þessi ár og ég tala nú ekki um hylmingu Kaþólsku Kirkjunnar. Löngu tímabært! En ekki hafa áhyggjur af mér. Er mjög lánsamur að eiga gott bakland. Í dag er ég á góðum stað í lífinu,“ skrifar Krummi að lokum.

Nýjast