Kröfu um gagnaöflun og vitnaleiðslur hafnað

Í gær hafnaði Héraðsdómur kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna fyrirhugaðrar málsóknar þeirra gegn Báru Halldórsdóttur. Bára hljóðritaði sem kunnugt er samtöl sex þingmanna, fjögurra frá Miðflokki og tveggja frá Flokki fólksins, þann 20. nóvember síðastliðinn á Klaustur bar. Stundin og Kjarninn eru meðal þeirra miðla sem greindu frá.

Þingmennirnir fjórir sem stefndu Báru fyrir dóm eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir.

Málinu líklega ekki lokið

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður Báru, segir í samtali við Fréttablaðið að þrátt fyrir að hafa átt von á þessari niðurstöðu sé það eina í stöðunni nú „að bíða og sjá hvort þessir fjórir þingmenn kæri niðurstöðu Héraðsdóms til Landsréttar eða fari beint í það að höfða einkamál.“ Þriðji möguleikinn sé svo að þeir kæri beint til lögreglunnar.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Báru, segist einnig hafa búist við þessari niðurstöðu og bætir við í samtali við Stundina: „En nú liggur fyrir erindi hjá Persónuvernd og þingmennirnir hafa boðað að þeir ætli í einkamál. Svo við bíðum bara og sjáum hvert framhaldið verður.“