Kröfðust aldrei borgarstjórastólsins

Nýr meirihluti í Reykjavík - umræður á Þjóðbraut í gærkvöld:

Kröfðust aldrei borgarstjórastólsins

Fulltrúar nýs meirihluta í Reykjavík
Fulltrúar nýs meirihluta í Reykjavík

Fulltrúar nýs meirihluta í borgarstjórn mættu á Þjóðbraut til Lindu Blöndal í gærkvöld: Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík tekur við sem forseti borgarstjórnar Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar sem verður formaður velferðarráðs og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Viðreisn sem tekur við sem formaður borgarráðs.

Nýr meirihluti var kynntur í vikunni og málefnasamningur flokkanna. Meirihlutinn mun taka við þriðjudaginn 19.júní. Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG hafa 12 fulltrúa á móti 11 sem skipa fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum, Flokki fólksins og Sósíalistaflokknum.

Þórdís Lóa tekur undir orð formanns síns, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem sagði Viðreisn myndu „selja sig dýrt“ í viðræðum við meirihlutaflokkana. Þórdís Lóa segir að það felist í að áherslur Viðreisnar í atvinnumálum hafi farið inn í málefnasamninginn en aldrei hafi verið gerð krafa um borgarstjórastólinn, umræðurnar hafi ekki gengið út á „stólaskipti“. Hún hafi sömuleiðis nokkrum sinnum rætt við oddvita Sjálfstæðisflokksins þegar umræður hófust strax eftir kosningarnar í liðnum mánuði.

Fram kemur að laun kennara og leikskólakennara verði hækkuð og allt starfsumhverfi þeirra. Sjálfræði hvers skóla verði einnig aukið. Dóra Björt segir að miðstýring hafi aukist undanfarin ár og skólastjórnum verði gefið meira frelsi um hvernig þeir skipuleggi skólastarfið, svo þeim líði ekki eins „verði sé að horfa yfir öxlina á þeim“. Heiða Björg Hilmisdóttir segist ekki taka þessu eins og gagnrýni á störf flokksfélaga síns, Skúla Helgasonar sem mun halda áfram sem formaður skóla- og frístundaráðs, Heiða Björg bendir á umfangsmikla menntaáætlun sem hafi verið gerð í miklu samráði við leikskólakennara og stjórnendur og kennara og skólastjórnendur í grunnskólum borgarinnar.

Aðspurðar af hverju þau gengu ekki lengra í að lækka matarkostnað skólabarna en í nýjum sáttmála stendur að þriðja barn fái fría skólamáltíð og meiri afsláttur verði gefinn fyrir annað barn. Þórdís Lóa segir að þarna sé verið að koma aðallega á móts við barnmargar fjölskyldur og einnig geti foreldrar að sjálfsögðu sent börn sín með nesti í skólann að heiman.

Þátturinn er endursýndur í dag og einnig aðgengilegur á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

 

Margt fleira bar á góma í umræðunum á Þjóðbraut.

Nýjast