Kristín: þessir menn eru að vinna þjóð sinni tjón

„Undanfarna mánuði hefur Orkupakkamálið verið fyrirferðarmikið í opinberri umræðu á Íslandi. Sumir vilja beinlínis stofna Evrópusamstarfi þjóðarinnar í hættu. Aðrir vilja skjóta málinu til hinnar svokölluðu EES-nefndar. Flest bendir til þess að þar séu sáralitlir raunverulegir hagsmunir undir. Verið er að eyða mikilli orku í mál sem varðar sáralitla, ef nokkra raunverulega hagsmuni lands og þjóðar.“

Þetta segir Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi í Fréttablaðinu í dag. Hún færir rök fyrir því að verið sé að vinna þjóðinni tjón með stöðugum umræðum stjórnmálamanna um orkupakkann. Mun mikilvægari verkefni sitja á hakanum eða fá ekki athygli stjórnmálamanna. Kristín segir:

„Vera kann að einhverjir geti fært rök fyrir því að Ísland eigi að færa sig í átt til aukinnar einangrunar og hafa meira sjálfdæmi um eigin mál. Orkupakkarnir svokölluðu eru hins vegar afleitur slagur að taka í þeim efnum, nema viðkomandi pólitíkusar stundi vísvitandi tilfinningaklám með tilvísunum til auðlinda og orku þjóðarinnar eigin starfsframa til framdráttar.“

Þá segir Kristín að lokum:

„Allt bendir til þess að orku stjórnmálamanna sé betur varið í annað en þras um hinn svokallaða Orkupakka. Næg eru viðfangsefnin. Þeir sem mesta elju og eftirfylgni sýna í umræðum um Orkupakkamálið eru að vinna þjóð sinni tjón, og beina kastljósinu frá áþreifanlegum viðfangsefnum.“