Krían viku á eftir sakir mótvinds

Enn er slydduveðri spáð um norðan- og norðanaustanvert landið á næstu dögum og virðistv einu gilda þótt komið sé fram í miðjan maí; næsta helgi býður upp á 1 til 4 stiga hita með kraparigningu og hraglanda fyrir norðan.  


Norðanáttin sem hefur verið ríkjandi um margra vikna skeið hefur gert það að verkum að blessuð krían hefur ekki hætt sínum 90 grömmum á síðasta legginn milli Skotlands og Íslands, en krían er sá farfugl sem á að baki lengstu flugferðina til íslands á hverju vori, en það tekur hana alla jafna 60 daga að fljúga frá vetrarheimkynnum sínum við Suðurskautslandið til Íslands. Bakaleiðin að hausti tekur raunar enn lengri tíma, eða 90 daga að jafnaði.


Nokkrar kríur eru þegar komnar til landsins en von er á flestum þeirra á næstu dögum þegar heldur ætti að dúra á lofti. Staðföst norðanáttin hefur haldið aftur af flestum farfuglum síðustu daga en Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur á Stokkseyri segir við Morgunblaðið í morgun að farfuglar reyni að komast hjá því að fljúga á móti vindi. Í tilviki kríunnar er það auðvitað eðlilegt, enda nær hún ekki 100 grömmum að þyngd svo sem fyrr segir.


Annars er fráleitt vorlegt yfir að líta fyrir farfuglana sem eru á leið til landsins, samanber þessi lýsing Vegagerðarinnar í morgun á ástandi þjóðvega:


Á Vestfjörðum er þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði en snjóþekja á Þröskuldum. Hálkublettir eru svo á Hrafnseyrarheiði en þæfingsfærð er um Dynjandisheiði þá er þungfært í Árneshreppi en unnið er að opnun. Vegir eru að mestu auðir á Norðurlandi en hálkublettir eru þó á Öxnadalsheiði, norðaustanlands eru víða hálkublettir eða hálka og sumstaðar snjóþekja. Ófært er um Hólasand. Á Austurlandi er hálka á Fjarðarheiði og Oddskarði en snjóþekja er á Möðrudalsöræfum og í Jökuldal. Þæfingsfærð er svo á Vatsskarði eystra en hálkublettir eru á Fagradal. Ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði.